Erlent

Gífurleg flóð í norðurhluta Englands

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Björgunarmenn að störfum í bænum Mytholmroyd en aðeins er fært um götur bæjarins á bátum.
Björgunarmenn að störfum í bænum Mytholmroyd en aðeins er fært um götur bæjarins á bátum. vísir/getty
Mikið hefur rignt í norðurhluta Englands í dag og hefur það haft í för með sér að margar ár hafa flætt yfir bakka sína. Að auki hafa heimili í Lancashire og Yorkshire verið rýmd vegna vatnsflaumsins. Um málið er meðal annars fjallað á BBC.

Samkvæmt frétt á vef Bloomberg voru hermenn kallaðir út til að koma upp flóðavörnum á þeim svæðum þar sem mestrar rigningar var von. Almannavarnir landsins hafa gefið út yfir hundrað flóðaviðvaranir en þar af eru yfir þrjátíu viðvarnir þess efnis að flóðin geti ógnað lífi fólks.

Cobra, neyðarnefnd Breta, hefur verið kölluð saman til fundar annan daginn í röð vegna flóðanna. Umhverfisráðherra landsins, Elizabeth Truss, tjáði fjölmiðlum að allt kapp væri lagt á að tryggja öryggi fólks en öryggi húsa og fasteigna fylgdi í kjölfarið.

Þetta er ekki í fyrsta skipti í ár sem breskar ár flæða yfir bakka sína í kjölfar úrhellis en það gerðist fyrir rúmum mánuði. Við það tilefni tilkynnti áðurnefnd Truss að það stæði til að taka flóðavarnir landsins í gegn til að tryggja að annað eins myndi ekki endurtaka sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×