Skoðun

Hugvekja um markaðsmál á jólum

Þóranna K. Jónsdóttir skrifar
Síðastliðnar vikur og mánuði hef ég velt fyrir mér hvort maður geti verið bæði andstæður neysluhyggju en jafnframt verið í markaðsmálum. Þessar hugsanir sækja enn meira á mig nú í aðdraganda jólanna þar sem við missum okkur í ruglinu og verslum eins og enginn sé morgundagurinn.

Ég varð því glöð þegar góður félagi minn benti mér á grein um positive marketing. Já, þarna kom nú akkúrat eitthvað sem á við mig!

Jákvæð markaðsfræði!

Í jákvæðri markaðsfræði er hlutverk fyrirtækisins að veita fólki það sem bætir líf þess. Fyrir það fær fyrirtækið greitt og allir vinna. Spurningin er svo: Hvað bætir líf okkar? Bætir það líf barnanna okkar að gefa þeim úlpu sem kostar tugi þúsunda? Bætir það líf okkar að eiga alveg eins blómavasa og allir hinir? Bætir það líf okkar þegar jólasveinninn kaupir rándýrar gjafir í skóinn fyrir suma en aðrir fá mandarínu?

Við berum öll ábyrgð. Við berum ábyrgð á okkur sjálfum. Við berum ábyrgð á börnunum okkar. Og sem fyrirtæki erum við einfaldlega samansafn af fólki, hluti af samfélaginu, og við berum ábyrgð á því að gera okkar til að gera samfélagið betra fyrir okkur öll.

Tilgangur

Mér finnst mikilvægt að fyrirtæki hafi tilgang umfram bara að græða peninga. Það þarf jú að græða peninga því annars fer það á hausinn og getur ekki látið neitt gott af sér leiða, en að græða peninga bara til að græða peninga – til hvers er það? Hvað þá að græða peninga með því að nýta sér veikleika mannskepnunnar og búa til úr þeim gerviþarfir. Er það ekki dálítið 2007? Og ég sé ekki af hverju það þarf. Það veit sá sem allt veit að margt má bæta í þessari veröld og við getum ábyggilega gert góðan „bissness“ úr því að mæta þörfum fólks og bæta líf þess þannig að allir njóti góðs af.

Markaðsfræði er bara safn af aðferðum og tólum og eins og ýmislegt annað í veröldinni er hægt að nota þekkingu og kunnáttu í markaðsmálum bæði til góðs og ills. Ég vil nota hana til góðs.




Skoðun

Sjá meira


×