Skoðun

Klikkhaus á kaffihúsi

Ingólfur Sigurðsson skrifar
Á árinu hefur samfélagið breyst. Við erum orðin meira afslöppuð, bæði gagnvart okkur sjálfum og öðrum. Opnari. Við frelsuðum geirvörtuna, sögðum reynslusögur af kynferðislegu ofbeldi og glímu okkar við geðsjúkdóma, fyrirlitum einelti og börðumst fyrir auknu jafnrétti milli kynjanna. En við gerðum það fyrst og fremst á netinu.

Þegar við göngum Laugaveginn og ókunnugur einstaklingur biður góðan dag hrökkvum við í kút. Við hrósum ekki fólki sem okkur finnst klæða sig vel og aldrei myndi maður fylgja eldri borgurum eða barni yfir umferðagötu óumbeðinn. Ef einhver myndi vinda sér upp að mér á kaffihúsi, kynna sig og byrja að spjalla eða jafnvel bjóða manni á stefnumót eru meiri líkur á að maður væri búinn að gera status um þennan klikkhaus fimm mínútum síðar en að ég myndi þiggja boðið. Þjóðin flýr á lyklaborðin þegar hún lendir í óþægilegum aðstæðum, eins og þegar náunginn á undan þér í röðinni hraunar yfir kornungan afgreiðsludrenginn, í stað þess að grípa inn í og koma drengnum til varnar.

Í staðinn horfum við niður á skjáinn, í verndaðri veröld okkar sjálfra, og uppfærum eigin fjölmiðil, með sérvöldu myndunum af okkur, og pössum upp á að vera ægilega kurteis og fín þar. Kannski væri kjörið áramótaheit að vera meira næs og opnari í persónu, en ekki bara á internetinu.




Skoðun

Sjá meira


×