Skoðun

Gríma karlmennskunnar

Atli Jasonarson skrifar
Það er kaldhæðnislegt að þeir, sem gagnrýndu mig mest fyrir pistilinn ‘Forréttindi mín sem karlmaður’, hafi gert það á þeim forsendum að í honum viðurkenndi ég óöryggi mitt. Ástæða þess að það er kaldhæðnislegt er sú að stór hluti þessa hóps hefur tekið virkan þátt í jafnréttisbaráttu kynjanna hérlendis en hæðist að mér þegar ég passa ekki fullkomlega við staðalímynd samfélagsins af karlmönnum – því eins og allir vita mega karlmenn ekki vera óöruggir eða sýna veikleikamerki; þeir skulu bera höfuðið hátt og bíta á jaxlinn.

En það getur verið hægara sagt en gert.

Ég hafði glímt við þunglyndi í mörg ár áður en ég ákvað, fyrir um það bil ári síðan, að leita mér læknis- og sálfræðiaðstoðar. Mínir allra nánustu höfðu áður hvatt mig til að leita mér hjálpar en ég vísaði slíku tali ávallt á bug. Flotti gaurinn ég gæti nefnilega ekki verið þunglyndur. Ég var virkur í félagslífinu í mennta- og háskóla og átti endalaust marga vini sem ég var alltaf að gera einhverja vitleysu með. Ef mér liði illa væri það ekkert nema aumingjaskapur í mér. Og ég mátti sko ekki vera aumingi, enda sannur íslenskur karlmaður, sem bar höfuðið hátt og harm sinn í hljóði.

Í staðinn setti ég upp grímu. Grímu karlmennskunnar. Ég þóttist vera harður og nettur gaur, sem ekkert gat sett úr jafnvægi. Mín öryggishegðun, sú hegðun sem ég greip til þegar ég fann fyrir vanlíðan og óöryggi, var að grínast með allt og hlæja að öllu - því þeim, sem er alltaf að grínast, getur ekkert liðið illa, er það nokkuð?

Enginn mátti sjá hvernig mér leið í raun og veru; enginn mátti sjá hve óöruggur ég var og hve illa mér leið. Ég hló á daginn og grét þegar ég kom heim. Rúmið var minn griðastaður því þar gat ég verið þunglyndi og óöryggi Atli í friði; þar gat ég grátið án þess að óttast að samfélagið dæmdi mig sem aumingja.

Það er ömurlegt að líða svona og enn verra að finnast maður ekki geta sagt neinum frá því. Það er ömurlegt að vera svo blindaður af staðalímynd samfélagsins um karlmennsku að finnast eðlilegra að bæla niður grátinn en að leyfa honum að brjótast fram og viðurkenna að maður þurfi á hjálp að halda. Og það er ömurlegt að við, sem samfélag, séum ekki enn komin á þann stað að öllum finnist þeir geta komið til dyranna eins og þeir eru klæddir og talað um líðan sína.

Í dag er sjálfsvíg algengasta dánarorsök ungra karla. Í mínu bataferli var það stórt skref þegar ég talaði við fyrsta lækninn um hvernig mér leið. Það var annað stórt skref þegar ég talaði við sálfræðinginn og enn annað þegar ég opnaði mig fyrir mínum nánustu.

Það eitt og sér, að tala um vandann, leysir hann kannski ekki en það getur hjálpað heilmikið. Ég legg til að við tökum niður grímu karlmennskunnar og tölum um hvernig okkur líður.

Það getur gert gæfumuninn.




Skoðun

Sjá meira


×