Skoðun

Gjaldþrot ekki að renna úr greipum

Ásta S. Helgadóttir skrifar
Frá 1. febrúar 2014 hefur umboðsmaður skuldara greitt dómstólum tryggingu fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta 229 einstaklinga. Að auki hefur embættið veitt 50 einstaklingum vilyrði fyrir að greiða þennan kostnað óski þeir eftir gjaldþrotaskiptum hjá hlutaðeigandi héraðsdómsstól. Aðstoðin byggist á lögum um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta nr. 9/2014. Líkt og við árslok 2014 hafa þeir sem leita til embættisins lýst yfir áhyggjum yfir því að þetta úrræði og tveggja ára fyrningarfrestur krafna við gjaldþrotaskipti muni falla niður um næstkomandi áramót. Virðist vera um útbreiddan misskilning að ræða.

Embættið vill vekja athygli á því að engin umræða hefur farið fram hjá stjórnvöldum um að fella framangreind lög úr gildi. Til að lengja fyrningarfrest krafna í kjölfar gjaldþrotaskipta þarf að breyta lögum um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 en ekkert slíkt frumvarp hefur verið lagt fram á Alþingi. Það er því ekki fyrirsjáanlegt í náinni framtíð að nokkuð muni breytast er snýr að aðgengi einstaklinga að fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta eða fyrningu krafna.

Innifalið í aðstoð umboðsmanns skuldara er mat á skuldastöðu þeirra sem til embættisins leita, öflun gagna sem þarf að leggja fyrir dómstóla og leiðbeiningar fyrir þá sem embættið telur að geti komist úr skuldavanda með öðrum hætti en með gjaldþrotaskiptum. Það er stór ákvörðun að óska eftir að verða gjaldþrota og mikilvægt að vera vel upplýst/ur um hvað það getur haft í för með sér. Það eru hagsmunir allra að skoða fyrst hvort önnur vægari úrræði geti hentað. Hlutverk embættisins felst í því að veita leiðbeiningar um úrræðið og er kappkostað að veita þeim sem til þess leita sem besta þjónustu. Er því óþarfi fyrir einstaklinga að leita sér kostnaðarsamrar aðstoðar til að sækja um fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar.

Það er jákvætt að einstaklingar leiti lausna á sínum skuldamálum og óski sem fyrst eftir gjaldfrjálsri aðstoð umboðsmanns skuldara. Þeir þurfa þó ekki að hafa áhyggjur af því að gjaldþrot eða tveggja ára fyrningarfrestur krafna í kjölfar gjaldþrots sé að renna þeim úr greipum.




Skoðun

Sjá meira


×