Skoðun

Gætum að hagsmunum Íslands

Haukur Þór Hauksson skrifar
Nú liggur fyrir að Evrópusambandið mun framlengja viðskiptaþvinganir sínar gegn Rússlandi í 6 mánuði en viðskiptaþvinganirnar hefðu ella fallið niður í lok janúar 2016.

Ísland er ekki bundið af ákvörðun ESB. Engar skuldbindingar knýja Ísland til að vera þátttakandi í viðskiptaþvingununum heldur tökum við sjálfstæða ákvörðun í málinu.

Til upprifjunar þá fela viðskiptaþvinganir „bandalagsþjóða“ (ESB, USA, Kanada auk nokkurra annarra þjóða) gagnvart Rússlandi í grunninn í sér eftirfarandi:

Fyrirtæki mega ekki eiga í vopnaviðskiptum við Rússa.

Fyrirtæki mega ekki selja tæknivörur til hernaðarnotkunar í Rússlandi. Fjármálastofnanir mega ekki fjármagna tiltekna rússneska banka til lengri tíma en 30 daga í senn.

Ekki er heimilt að fjármagna tiltekin orkufyrirtæki í Rússlandi.

Ferðabann gildir fyrir tiltekna rússneska og úkraínska einstaklinga til bandalagsþjóða.

Frysting eigna gildir gagnvart tilteknum rússneskum og úkraínskum einstaklingum hjá bandalagsþjóðum.

Fyrirtæki mega ekki veita ferðamannaþjónustu á Krímskaga.

Ef einhver hélt að viðskiptaþvinganir bandalagsþjóða væru eitthvað í ætt við viðskiptabann Bandaríkjanna á Kúbu og Íran þá er sá hinn sami að misskilja málið í grundvallaratriðum.

Áðurnefnd atriði breyta engu um að hefðbundin viðskipti fara enn fram á degi hverjum í miklum mæli á milli Rússa og hinna svokölluðu bandalagsþjóða. Til að mynda selja Þjóðverjar iðnaðarframleiðslu sína til Rússlands á sama tíma og þeir eru stórkaupendur að olíu og gasi frá Rússlandi. Stórmarkaðir í Rússlandi eru fullir af vörum bandalagsþjóða, hvort sem um er að ræða fatnað, vín, leikföng eða sælgæti. Götur Moskvu iða af nýjum þýskum, bandarískum og frönskum bifreiðum og enn eru gerðir risasamningar á milli fyrirtækja bandalagsþjóða og rússneskra fyrirtækja og stofnana.

Rússar svöruðu fyrrgreindum viðskiptaþvingunum gegn sér með banni á innflutningi matvæla sem fól í sér að nær allur innflutningur á fiski og algengum tegundum kjöts frá bandalagsþjóðum er bannaður til Rússlands.

Samfara mjög aukinni matvælaframleiðslu í Rússlandi í kjölfar viðskiptaþvingana eykst eftirspurn mjög ört eftir framleiðslutækjum og öðrum iðnaðarvörum til landbúnaðarframleiðslu í Rússlandi. Hvaðan skyldu Rússar kaupa þær iðnaðarvörur? Það stendur ekki á stóru bandalagsþjóðunum að svara þeirri eftirspurn. Svona getur heimurinn verið skrýtinn!

Grunnt á samstöðunni

Þátttaka Íslands í viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi er í reynd einungis táknræn. Hún hefur enga raunverulega þýðingu eða afleiðingar fyrir Rússa. Íslendingar eiga ekki í vopnaviðskiptum, rússnesk stórfyrirtæki fjármagna sig ekki á Íslandi og tilteknir rússneskir einstaklingar geta lifað ágætu lífi án þess að fara gullna hringinn á Íslandi.

Þegar íslensk stjórnvöld leituðu eftir niðurfellingu eða lækkun tolla (20%) á frystum makríl til ríkja ESB á grundvelli þess að stuðningurinn (táknræni) í „Rússamálinu“ þýddi lokun stærsta markaðar uppsjávartegunda Íslendinga var svar Evrópusambandsins einfalt. Ísland fengi enga lækkun á tollum inn á svæði ESB.

Færeyingar taka ekki þátt í viðskiptaþvingunum gegn Rússum og selja þangað uppsjávartegundir sínar á góðu verði sem aldrei fyrr. Þeir átta sig á þeirri staðreynd að þátttaka þeirra væri einungis táknræn á sama tíma og hún myndi kosta þá mikið. Stuðningsleysi Færeyinga í Rússamálinu virðist ekki trufla samskipti ESB og Færeyja á fundum strandríkja í Norður-Atlantshafi þegar kemur að því að mynda teymi gegn Íslendingum um veiðiheimildir í kolmunna og makríl.

Afleiðingarnar fyrir Ísland

Afleiðingar þess fyrir Ísland að vera táknrænn þátttakandi í viðskiptaþvingunum gegn Rússum eru þær að stærsti markaður uppsjávarafurða Íslendinga er lokaður. Hér er um að ræða markað sem hefur vaxið ört undanfarin ár og nemur um 30 milljörðum króna á ársgrundvelli.

Lokun Rússlandsmarkaðar gerir það að verkum að íslenskar uppsjávarafurðir eru seldar á lægri verði en ella, mun meira magn fer í bræðslu í stað manneldis, gjaldeyristekjur dragast saman, atvinna dregst saman, laun lækka og útsvar til sveitarfélaga lækkar. Því lengur sem bannið gildir því meiri hætta er á að viðskiptasambönd sem tekið hefur áratugi að rækta, í gegnum súrt og sætt, tapist til lengri tíma.

Lengi getur vont versnað. Styðji Íslendingar framlengingu viðskiptaþvingana þá aukast líkurnar verulega á því að lokað verði inn á markaði tollabandalags Rússlands, Hvíta-Rússlands, Kasakstans, Arm­eníu og Kirgistan (e. Eurasian Customs Union). Gerist það lokast mikilvægur loðnumarkaður Íslendinga í Hvíta-Rússlandi.

Þá gáfu Rússar það í skyn fyrr í þessum mánuði að svokallaður Smugusamningur færi í uppnám vegna málsins en Íslendingar hafa veitt um 8.000 tonn af þorski í Barentshafi á grundvelli umrædds samnings og losa tekjur af þeim veiðum 2 milljarða króna á ári.

Ísland er fiskveiðiþjóð. Af þeim sökum vega gagnaðgerðir Rússa miklu þyngra í efnahag Íslands en nær allra annarra bandalagsþjóða. Það væri áhugavert að vita hver viðbrögð Þjóðverja yrðu ef innflutningur þýskra bifreiða og álíka iðnaðarvara yrði bannaður til Rússlands.

Ísland getur komið skoðun sinni á deilunni á Krímskaga á framfæri með öðrum hætti en að taka gagnrýnislaust þátt í viðskiptaþvingunum sem leiddar eru af Bandaríkjunum. Þvinganirnar hafa einungis táknrænt gildi en mikinn skaða fyrir íslenskan efnahag.




Skoðun

Sjá meira


×