Skoðun

Friðarganga fyrir alla eða kirkjuheimsókn fyrir suma?

Bjarni Jónsson skrifar
Prestarnir Arna Sigurðardóttir og Guðrún Karls Helgudóttir skrifa grein í Fréttablaðið þann 17. desember og eru kirkjuheimsóknir skólabarna umræðuefnið. Þær hvetja öll trúar- og lífsskoðunarfélög til að bjóða skólabörnum í heimsókn til sín á hátíðum viðkomandi safnaða.

Ég tek heilshugar undir hvatningu þeirra. Ég tel mikilvægt fyrir öll börn að kynnast trúarbragðasögu sem kennd er í skólum. Ég tel hins vegar ekki að slíkar heimsóknir eigi að fara fram á skólatíma og eru ástæður margar.

Opinberir skólar eru griðastaður barna okkar þar sem foreldrar eiga að vera öruggir um að fram fari kennsla en ekki innræting. Hlutverk og verkefni trúfélaga er að boða trú í hvaða formi sem það er gert. Þar skilur að skóla og trúfélög.

Það sem prestar virðast eiga erfitt með að skilja er að með því að skipuleggja heimsóknir skóla í kirkjur er verið að ganga á rétt foreldra til að ala barn sitt í þeirri trúar- eða lífsskoðun sem það kýs. Annað sem virðist stundum gleymast er að í skólunum eru börn foreldra sem eru trúlaus en einnig börn innflytjenda sem eru af allt annarri trú eða jafnvel engri.

Með því að skikka heilu skólana í heimsókn í kirkjur er verið að aðgreina nemendur eftir lífsskoðun. En það eru töluvert margir foreldrar sem eiga mjög erfitt með að stíga fram og andmæla. Þau eru hrædd um að börn þeirra verði fyrir aðkasti samnemenda eða starfsfólks skólans. Okkur hjá Siðmennt berst töluvert af slíkum kvörtunum á hverju ári.

Ég tek því heilshugar undir áskorun prestanna um kirkjuferðir. Þau trúfélög sem vilja ná til barna bjóði foreldrum þeirra að sækja kirkjur utan skólatíma. Þá er tryggt að heimsóknin valdi ekki endalausri neikvæðri umræðu, óþarfa rifrildi og sundrungu á meðal foreldra og starfsfólks, því það eru ekki allir starfsmenn sáttir.

Förum að fallegu fordæmi skólastjórnenda í Langholtsskóla sem skipulögðu friðargöngu fyrir alla en hættu við kirkjuheimsókn fyrir suma.




Skoðun

Sjá meira


×