Skoðun

Hugmyndafræði hæfnieinkunna í skólum

Gylfi Jón Gylfason skrifar
Vorið 2016 verða einkunnir nemenda sem ljúka 10. bekk grunnskóla gefnar í formi bókstafa í stað þess að vera á kvarðanum 1 – 10. Fyrirkomulag þetta á einkunnagjöf hefur staðið til frá því að ný aðalnámskrá grunnskóla var gefin út 2011. Vegna umræðu sem skapast hefur um nýjan einkunnakvarða og breytinguna frá þeim eldri, telur Menntamálastofnun brýnt að útskýra ástæðu þess og hvað ný einkunnagjöf þýðir fyrir nemendur.

Gefur heildstæðari mynd

Til að útskýra mun á nýju og gömlu einkunnakerfi þarf að skoða nánar eldra einkunnakerfið. Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla frá 1999 höfðu skólar frelsi til að ákveða hvernig vitnisburður nemenda var settur fram. Eingöngu var tekið fram að hann skyldi settur fram á skýran og ótvíræðan hátt þannig að nemendur og foreldrar gætu skilið hvað átt var við. Nota mátti tölustafi, bókstafi, orð eða aðra framsetningu. Þannig voru engin skýr viðmið um hvað stóð á bak við lokaeinkunnir úr grunnskólum og lítið sem ekkert samræmi á milli skóla.

Í nýja aðalnámskrá árið 2011 var sett ákvæði til að auka samræmi og gefa heildstæðari mynd af hæfni hvers nemanda á hverju námssviði við lok grunnskólanáms. Ákveðið var að nýi einkunnakvarðinn skyldi vera á formi bókstafanna A, B+, B, C+, C og D. Með nýjum reglum hefur verið komið á stöðluðum vitnisburði fyrir nemendur við lok grunnskóla og þar með ætti að vera komið í veg fyrir einkunnaverðbólgu sem tíðrætt hefur verið um.

Flestar þjóðir sem við berum okkur saman við hafa í námskrá ákvæði um að meta skuli hæfni nemenda. Hæfnin er sett fram stigvaxandi og metið er hversu vel nemandi sýnir hæfnina í verki en þar koma bókstafirnir til ­sögunnar. Til grundvallar hverjum bókstaf er lýsing sem segir til um hversu vel nemandi hefur tileinkað sér hæfnina sem stefnt er að, svokölluð matsviðmið í aðalnámskrá. Með hæfni er átt við hvernig einstaklingur notar þekkingu sína og leikni. Það er, hvað hann gerir með það sem hann veit og getur.

Sömu hæfnilýsingar hjá öllum

Hæfni sem nemandi á að hafa tileinkað sér við lok grunnskóla er lýst í matsviðmiðum sem sett eru fram fyrir hverja námsgrein, námssvið og lykilhæfni í aðalnámskrá grunnskóla. Matsviðmiðin lýsa hæfni á bókstafakvarða sem kallast hæfnieinkunn. Grunnskólum er nú skylt að nota þennan matskvarða við brautskráningu nemenda eins og fyrr segir. Það leiðir til þess að allir skólar miða við sömu hæfnilýsingu fyrir hverja einkunn sem eykur samræmi frá því sem áður var.

Nemendur sem fá einkunnina A sýna framúrskarandi hæfni. Ekki eru sérstök matsviðmið fyrir B+ en nemandi sem fær þá einkunn hefur náð öllum eða því sem næst öllum viðmiðum fyrir B og stórum hluta þeirra viðmiða sem eru undir A. Þess má geta að B+ er ekki mitt á milli A og B heldur er það nær A í hæfni. Einkunnin B lýsir góðri hæfni og þeir sem ná þeirri einkunn geta hafið nám í framhaldsskóla á þrepi tvö. Einkunnin C+ skilgreinist með svipuðum hætti og B+ nema að nemendur þurfa að hafa náð hæfniviðmiðum fyrir C og stórum hluta hæfniviðmiða fyrir B án þess þó að uppfylla hæfniviðmið um B að öllu leyti. C lýsir sæmilegri hæfni. Þeir nemendur sem fá D hafa ekki náð hæfniviðmiðum sem lýst er í C.




Skoðun

Sjá meira


×