Skoðun

Aðskilnaður, jafnræði og þarfir

Svnaur Sigurbjörnsson skrifar
Í útreikningi byggðum á tölum frá Hagstofu Íslands fyrir árið 2012 fékk Þjóðkirkjan 230% meira en önnur trúfélög fyrir hvern skráðan meðlim 16 ára og eldri. Þessi mismunun er lögbundin í því að hún fær út í hið óendanlega greidd laun fyrir presta sína og biskupsstofu vegna jarða (sem ríkið er löngu búið að greiða andvirðið af) sem kirkjan lét af hendi og svo prósentutengdra sjóða til reksturs.

Þetta hlutfall mismununar er áfram það sama þó að réttur veraldlegra lífsskoðunarfélaga hafi verið settur upp við hlið trúfélaga árið 2013. Þjóðkirkjan er ríkiskirkja því að hún er í fyrsta lagi ekki með venjulegan kaupsölusamning við ríkið heldur með óendanleg réttindi á framfærslu af hálfu ríkisins. Í öðru lagi vegna þess að hún er með lagalega vernd og sérréttindi bundin í stjórnarskrá og lög landsins. Það er aðskilnaðurinn á þessu tvennu sem fólk á við þegar átt er við um „aðskilnað ríkis og kirkju“ en ekki þann útúrsnúning sem biskup og fleiri prestar hafa haldið frammi að nú þegar sé aðskilnaður við lýði því að kirkjan hafi sjálfræði í sínum eigin málum. Þetta algera sjálfræði þjóðkirkjunnar gerir reyndar ríkissambandið enn brenglaðra því að það heldur ekki vatni stjórnskipulega séð að stofnun geti verið á föstum framlögum ríkisins en ekki þurft að svara til ábyrgðar til þess á móti.

Eiga að þrífast í hlutfalli við áhuga

Aðskilnaður er fyrst og fremst jafnréttis- og jafnræðismál; að öll trúfélög og lífsskoðunarfélög fái sömu réttindi og sömu meðferð af hálfu ríkisins og að engum sé mismunað. Að baki þessu máli liggur önnur ekki síður mikilvæg ákvörðun sem snýst um það hversu mikið ríkið eigi að skipta sér af þessum félögum og þá ef afskipti (eftirlit, stuðningur) eru talin æskileg, þá hversu mikið eigi ríkið að styðja félögin og hvort setja eigi skilyrði um að þau fylgi ákveðnum lágmarkshugsjónum um mannréttindi til að fá einhverja aðstoð.

Við þurfum að spyrja okkur hvort við teljum félögin inna mikilvæg og þörf störf af hendi. Félögin sjá meðal annars um útfarir og það er spurning hvort t.d. styrkja eigi vinnuna við þær því við deyjum jú öll og viljum kveðja okkar látnu á virðingarverðan máta. Um aðra starfsemi eins og „sálræna“ hjálp eftir áföll má ræða og skoða hvort réttlætanlegt sé að sérstök trú fólks gefi því rétt til að sækja trúarhjálp með launaðri aðstoð ríkisins. Til þess er fagfólk í heilbrigðisþjónustu almennt best til þess fallið eins og t.d. sálfræðingar sem enn hafa ekki fengið þann stað í heilbrigðiskerfinu sem þeirri stétt ber.

Trúfélög og lífsskoðunarfélög eiga að þrífast í hlutfalli við hversu mikill áhugi er fyrir þeim hverju sinni, en ekki í krafti fjárframlaga úr ríkissjóði nema til að styðja ef til vill við þann hluta starfseminnar sem snýr að þeirri nauðsyn að fá virðingarverða útför óháð trúar- eða lífsskoðun.




Skoðun

Sjá meira


×