Fótbolti

Ragnar: Dreymir um að spila með Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ragnar var einn af bestu leikmönnum Íslands í undankeppni EM 2016.
Ragnar var einn af bestu leikmönnum Íslands í undankeppni EM 2016. vísir/getty
Landsliðsmanninn Ragnar Sigurðsson dreymir um að spila í ensku úrvalsdeildinni. Þetta kemur fram í viðtali við Guðmund Hilmarsson í Morgunblaðinu í dag.

Ragnar hefur leikið með rússneska úrvalsdeildarliðinu Krasnodar síðan 2014 en vill yfirgefa félagið og reyna fyrir sér í annarri deild.

" Ég er búinn að tjá forráðamönnum Krasnodar að ég vilji fara. Það eru ákveðnir hlutir þarna sem ég er ekki ánægður með en ég vil ekki ræða um það á þessu stigi," segir Ragnar í viðtalinu. Hann tekur þó fram að hann kunni ágætlega við sig í Rússlandi.

"Það er ekki það að félagið hafi ekki staðið í skilum og borgi ekki á réttum tíma. Það er vel hugsað um okkur leikmennina og mér líkar vel við allt fólkið þarna.

"En staðan er sú að ég vil fara en vandamálið er það að félagið má ekki kaupa leikmenn sem stendur vegna þess að það hefur ekki náð að fylgja reglum UEFA um fjárhagslega háttvísi. Það má selja mig og getur þá keypt leikmann fyrir þann pening. Krasnodar vill því ekki sleppa mér neitt ódýrt. Ég vonast eftir því að halda mínu sæti í landsliðinu, spila vel á EM og eiga þar með mögu­leika á að verða keyptur."

Í viðtalinu segir Ragnar að draumastaðurinn sé enska úrvalsdeildin og draumaliðið Liverpool.

"Ég held eiginlega ekki með neinu liði í dag en þegar ég var yngri var Liverpool mitt lið og það var líka liðið þeirra pabba og Bjössa bróður. Maður skal aldrei segja aldrei. Það er kannski fjarlægur draumur að spila á Englandi en ef ég næ ekki að uppfylla þann draum þá fer ég ekkert að grenja," segir Ragnar sem lenti í 11. sæti í kjörinu á Íþróttamanni ársins 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×