Skoðun

Þakkir

Guðrún Pétursdóttir og börn Ólafs Hannibalssonar skrifar
Á þessu ári urðum við vitni að slíkri fagmennsku í starfi, að við getum ekki látið árið líða án þess að þakka hana. Reynslan kom ekki til af góðu, banvænn sjúkdómur ástvinar varð ekki umflúinn. Þegar svo var komið að læknandi meðferð dugði ekki lengur, lærðum við um hlutverk hinnar líknandi meðferðar. Um muninn á því að lækna og líkna.

Okkur var bent á að hafa samband við heimahjúkrun í upphafi ársins og leituðum til Karitas ehf., án þess að gera okkur í raun grein fyrir hvaða þjónustu við kæmum til með að þurfa né hvernig henni yrði háttað. Nú, þegar við lítum til baka, dáumst við að hinni fumlausu og hlýju fagmennsku sem einkenndi samskiptin frá fyrstu stund til hinnar hinstu.

Í upphafi kom hjúkrunarfræðingur Karitas einungis til að kanna aðstæður og stöðu mála, líðan okkar allra. Við ræddum meðal annars um það hvað manni bregður við að vera sagt að héðan af muni líknardeildin sinna fjölskyldunni. Líknardeild hljómar eins og endalok. Með mildi þess sem hlustar meira en hann talar útskýrði hjúkrunarfræðingurinn fyrir okkur starf þessarar mikilvægu deildar og þátt líknar í umönnum langveikra, sem við sannarlega áttum eftir að kynnast og læra að meta. Og þökkum nú.

Það fyllir okkur aðdáun að líta yfir þessa mánuði sem við áttum með Karitas og líknardeildinni og sjá í samhengi hvern þátt í þeirra starfi. Hvernig þær – því já, hjúkrunarfræðingar og læknar voru allt konur – stilltu nálægð sína við okkur nákvæmlega eftir þörfum okkar. Hvernig komur þeirra urðu tíðari eftir því sem þörfin jókst og loks mörgum sinnum á dag – og alltaf þegar á þurfti að halda. Og ekki bara þegar á þurfti að halda, heldur eins og á þurfti að halda. Þvílík fagmennska: kunnátta, skilningur, reynsla, öryggi – og síðast en ekki síst hjartahlýja.

Þær gáfu okkur öllum sjálfstraust til að takast á við þetta ­erfiða verkefni, töldu í okkur kjark, hvöttu okkur til dáða og stóðu við bakið á okkur, alltaf innan seilingar. Sem varð til þess að fjölskylda og vinir nýttu tímann til hins ýtrasta og eignuðust ómetanlegar minningar um samveru og nánd allt til hinstu stundar. Minningar sem hafa gefið okkur styrk til að mæta breyttum veruleika. Minningar sem þetta dásamlega fagfólk gerði okkur kleift að eignast.

Við þökkum ykkur Karitas og líknardeild og biðjum ykkur blessunar í öllu ykkar starfi. Við þökkum íslensku samfélagi fyrir að svona þjónusta skuli vera til hér á landi. Þeir sem reynt hafa, vita hvaða máli þessi þjónusta skiptir, hún er ekki sjálfsögð og það verður að standa vörð um hana.




Skoðun

Sjá meira


×