Erlent

150 þúsund manns mótmæltu í Berlín

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/epa
Að minnsta kosti hundrað og fimmtíu þúsund manns fjölmenntu í Berlín í dag til að mótmæla fyrirhuguðum fríverslunarsamningi á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Mótmælendur segja að um ólýðræðislegan samning sé að ræða sem eigi eftir að bitna á neytendum og vinnandi fólki.

Viðræður um samninginn, TTIP, hafa staðið yfir í nokkurn tíma en verði hann samþykktur verður til stærsta fríverslunarsvæði í heimi. Andstæðingar hafa lýst yfir efasemdum um samninginn og segja óeðlilega mikla leynd ríkja yfir viðræðunum. Þá óttast þeir að stórfyrirtækjum verði færð of mikil völd með samningnum og að matvælaöryggi verði ábótavant.

Mótmælin eru líklega þau fjölmennustu í Berlínarborg í áraraðir. Þau voru skipulögð af umhverfissamtökum, mannúðarsamtökum og stjórnmálaflokkum og fóru friðsamlega fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×