Skoðun

Farsæl lausn á greiðslu­jafnaðar­vanda þjóðarbúsins

Benedikt Árnason og Benedikt Gíslason skrifar
Íslendingar hafa frá hruni glímt við greiðslujafnaðarvanda sem er einstakur í síðari tíma sögu vestrænna lýðræðisríkja. Vandinn felst í því að þjóðarbúið stendur ekki undir því að skipta miklum innlendum eignum í erlendan gjaldeyri á skömmum tíma án þess að slíkt valdi verulegu gengisfalli krónunnar og þar með lakari lífskjörum. Vandinn vegna innlendra eigna slitabúa föllnu bankanna var um mitt þetta ár metinn á 900 milljarða króna og 1.200 milljarðar króna ef aðrar eignir erlendra aðila í íslenskum skuldabréfum og innstæðum eru teknar með. Til samanburðar er landsframleiðslan um 2.000 milljarðar króna á ári.

Stjórnvöld hafa nú kynnt lausn á stærsta hluta þessa vanda – innlendum eignum slitabúa föllnu bankanna – en tilvist þeirra hefur dregið verulega úr mætti hagkerfisins á síðustu árum. Á síðustu dögum hafa birst nokkrar fréttir þar sem lausn stjórnvalda er tortryggð. Misskilnings gætir í þessum fréttum sem gefur tilefni til að rifja upp vandann og lausn hans í stuttu máli.

Meginstefið í vinnu stjórnvalda hefur verið að leysa greiðslujafnaðarvandamál Íslands þannig að unnt verði að aflétta fjármagnshöftum án ótilhlýðilegrar áhættu á þjóðhags- og fjármálastöðugleika. Lausnin varð að tryggja að gengi krónunnar félli ekki, að aðgengi íslenskra fyrirtækja að erlendum mörkuðum yrði ekki lakara, að alþjóðlegar skuldbindingar væru virtar og áhætta í ríkisfjármálum væri takmörkuð.

Lausn stjórnvalda er sniðin að því markmiði að leysa greiðslujafnaðarvandann. Til þess varð að fara yfir hverja eign í hverju slitabúi fyrir sig og greiðslujafnaðarvandinn við hverja eign metinn og mótvægi fundið. Eignir slitabúanna eru ólíkar og því er lausnin margþætt. Sumar eignir er unnt að framselja beint til ríkisins á meðan aðrar eignir krefjast annarrar meðhöndlunar.

Mótvægisaðgerðir vegna stöðugleikaskilyrða nema samtals yfir 850 milljörðum króna miðað við núverandi matsverð. Mikilvægt er að hafa í huga að hér er um að ræða mótvægi vegna aðsteðjandi greiðslujafnaðarvanda en ekki nema að hluta til beinar greiðslur til ríkissjóðs. Mótvægið fæst með framsali eigna til ríkisins, fjársópsákvæðum, útgáfu skuldabréfa, afkomuskiptasamningum, breytingu innlána í skuldabréf, ráðstöfun innlendra fjármuna slitabúanna í innlendan rekstrar­kostnað og endurfjármögnun lána. Engin eign er skilin eftir. Hver einstök eign slitabúanna á sér mótvægi í lausn stjórnvalda. Greiðslur til ríkisins vegna aðgerða stjórnvalda nema samtals tæpum 500 milljörðum króna miðað við núverandi matsverð. Hagur þjóðarbúsins vænkast hins vegar mun meira.

Skuldir ríkisins lækka

Með lausninni á innlendum eignum slitabúanna er komið í veg fyrir að þau orsaki gengisfall krónunnar. Skuldir ríkisins munu lækka verulega og gjaldeyrisvaraforðinn stækka. Erlend staða þjóðarbúsins stefnir nú í að verða sú hagstæðasta í hálfa öld. Bönkum er tryggð erlend fjármögnun til langs tíma sem veitir íslenskum fyrirtækjum betri aðgang að erlendu lánsfé og styður við uppbyggingu í atvinnulífinu. Jafnframt dregur fjármögnunin úr erlendri endurfjármögnunaráhættu bankanna. Þessi jákvæðu áhrif á hagkerfið eru byrjuð að koma fram með hækkun á lánshæfismati og almennt meira trausti á hagkerfinu.

Það segir sig sjálft að farsæl lausn við jafn víðtækum vanda er á engan hátt sjálfgefin. Eigendur krafna gefa ekki eftir eigur sínar nema að fullreyndu. Kylfan sem fólst í stöðugleikaskatti var nauðsynleg fyrir lausn málsins. Vegna þess möguleika að markmið stjórnvalda hefðu ekki náðst með stöðugleikaskilyrðunum, þar sem áhætta er framseld milli aðila og hlutleyst fyrir þjóðarbúið, varð að liggja fyrir önnur lausn þar sem áhættan er metin og greitt fyrir hana. Þessi áhætta stafar af óvissu um virði innlendra eigna slitabúa. Skatturinn hefði gefið um 620 milljarða í ríkissjóð við núverandi gengi þegar búið er að taka tillit til fullnýtingar frádráttarliða frá skatti. Stöðugleikaskilyrðin, sem nú hafa verið samþykkt, eru hins vegar klæðskerasaumuð að þörfum þjóðarbúsins og gefa hagkerfinu færi á að vaxa og dafna.

vísir/valgeir gíslason



Skoðun

Sjá meira


×