Erlent

Samþykktu aðskilnaðaráætlun í óþökk stjórnvalda

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Starfandi forseti Katalóníu Arthur Mas yfirgefur hér héraðsþingið eftir að niðurstöðurnar lágu fyrir í dag.
Starfandi forseti Katalóníu Arthur Mas yfirgefur hér héraðsþingið eftir að niðurstöðurnar lágu fyrir í dag. VÍSIR/AP
Héraðsþingið í Katalóníu samþykkti í dag aðgerðaráætlun sem miðar að því að héraðið öðlist sjálfstæði frá Spáni árið 2017.

Áætlunin var samt þykkt með 72 atkvæðum gegn 63 í þinginu sem hefur aðsetur í Barselóna.

Ríkisstjórn Spánar brást fljótt við eftir að niðurstöðurnar lágu fyrir. Hún hefur þegar lýst því yfir að samþykktinni verði vísað til stjórnarskrárdómstóls landsins sem áður hefur komið í veg fyrir fyrri aðskilnaðartilraunir héraðsmanna.

Þetta kom fram í sjónvörpuðu máli forsætisráðherra landsins, Mariano Rajoy. „Katalónía er ekki að fara neitt, ekkert mun brotna,“ hefur CBS eftir honum.

Þá bætti hann við að hann hefði í huga að mynda bandalag með formanni sósíalistaflokksins, Pedro Sanchez, sem hefur verið einn dyggast andstæðingur sjálfstæðis Katalóníu á síðustu misserum.

Hægrið og vinstri sammæltust um sjálfstæði

Ákvörðun héraðsstjórnarinnar kemur í kjölfar kosningasigurs bandalags sjálfstæðissinna í september síðastliðnum.

Bandalagið, sem kallast Sameinuð um já, samstarf hægriflokkanna Lýðræðissamkomu Katalóníu og Demókrataflokks Katalóníu annars vegar og vinstri flokkanna  Vinstri lýðveldisflokksins og Vinstri hreyfingarinnar hins vegar. Flokkarnir sammældust fyrir kosningarnar um að leggja til hliðar sín hefðbundnu stefnumál til að sameina krafta sína til að tryggja sjálfstæði.

Íbúar Katalóníu gengu að kjörborðinu í nóvember í fyrra til að greiða atkvæði um sjálfstæði í óformlegri þjóðaratkvæðagreiðslu. 80 prósent kjósenda voru hlynnt sjálfstæði en stjórnvöld í Madríd viðurkenndu ekki lögmæti kosninganna og hafa heitið því að skjóta öllum yfirlýsingum um sjálfstæði til dómstóla.

Forsætisráðherrann Rajoy er þeirrar skoðunar að sjálfstæði Katalóníu varði alla Spánverja og því væri réttast að allir íbúar Spánar fengju að kjósa um sjálfstæði Katalóníu. Spán munar miklu um aðild Katalóníu þar sem héraðið, sem telur 16 prósent íbúa Spánar, telur 20 prósent af þjóðarframleiðslu Spánar. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×