Erlent

Rússlandsforseti ætlar til Parísar

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. vísir/epa
Vladimír Pútín Rússlandsforseti tekur þátt í loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem haldin verður í París dagana 30. nóvember til 11. desember næstkomandi.

Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakkslands, staðfesti þetta í gær.

Pútín mun hitta þar bæði Barack Obama Bandaríkjaforseta og Xi Jinping, forseta Kína, auk fjölmargra annarra þjóðarleiðtoga.

Fyrirkomulagið á ráðstefnunni verður frábrugðið fyrri ráðstefnum þar sem þjóðarleiðtogar hafa ekki komið fyrr en undir lokin, þegar undirsátar þeirra hafa fundað dögum saman. Í þetta skiptið koma þeir strax í byrjun viðræðna, sem þykir auka líkurnar á því að samkomulag takist að þessu sinni.

Rússland hefur þarna mikilvægu hlutverki að gegna vegna þess hve fyrirferðarmikið landið er í olíuframleiðslu heimsins.

Markmiðið er að ná samkomulagi sem tryggir að dregið verði úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Vegna þess hve illa hefur gengið að ná samkomulagi á mörgum fyrri ráðstefnum þykir orðið of seint að stefna að því marki, að hitastig andrúmslofts jarðar hækki ekki meira en 2 gráður. Þess í stað er nú stefnt að því að setja markið við 2,7 gráður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×