Fótbolti

Brasilískur landsliðsmaður nýr liðsfélagi Viðars og Sölva í Kína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kínverska félagið Jiangsu Guoxin-Sainty F.C. er hvergi nærri hætt að styrkja sig fyrir komandi tímabil en áður höfðu Kínverjarnir samið við íslensku landsliðsmennina Viðar Örn Kjartansson og Sölva Geir Ottesen.

Forráðamenn Jiangsu Sainty eru nú í viðræðum um kaup á brasilíska sóknarmiðjumanninum Jádson en þessi reynslubolti spilaði á sínum tíma í sex ár með úkraínska liðinu Shakhtar Donetsk.

Jádson á að baki átta landsleiki fyrir Brasilíu en hann var í leikmannahópi liðsins í Álfubikarnum sumarið 2013 og skoraði fyrir Brasilíu í Suður-Ameríkukeppninni í Argentínu árið 2011.

Jádson er orðinn 31 árs gamall og hefur frá árinu 2011 spilað í heimalandinu, fyrst með Sao Paulo og síðasta tímabil með Corinthians. Sao Paulo og Corinthians skiptu á honum og Alexandre Pato, fyrrum leikmanni AC Milan, í febrúar 2014.

Jádson fékk tíuna hjá Corinthians og var með 4 mörk og 8 stoðsendingar í 31 leik á síðasta tímabili.

Meu Timao segir frá því að Jádson sé á leiðinni til Kína fyrir lok vikunnar þar sem að hann muni skrifa undir þriggja ára samning. Þar kemur jafnframt fram að tilboð Kínverjanna sé það gott að hvorki félagið né Jádson geti hafnað því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×