Fótbolti

Tékknesk fótboltagoðsögn fallin frá

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Masopust lék lengst af með Dukla Prag í heimalandinu.
Masopust lék lengst af með Dukla Prag í heimalandinu. vísir/getty
Tékkinn Josef Masopust, sem skoraði í úrslitaleik HM 1962, er látinn, 84 ára að aldri.

Masopust var á sínum tíma einn af bestu fótboltamönnum í heimi og var m.a. valinn knattspyrnumaður Evrópu 1962, fyrstur leikmanna frá Austur-Evrópu.

Masopust lék 63 landsleiki fyrir Tékkóslóvakíu á sínum tíma og skoraði í þeim 10 mörk, þ.á.m. gegn Brasilíu í úrslitaleik HM í Chile 1962.

Sjá einnig: Brasilíumenn syrgja mikla knattspyrnugoðsögn í dag.

Masopust kom Tékkum yfir í leiknum á 15. mínútu en forystan entist aðeins í tvær mínútur. Ekki er langt síðan annar markaskorari í leiknum, Brasilíumaðurinn Zito, lést en hann kom brasilíska liðinu í 2-1 á 69. mínútu.

Í myndbandinu hér að neðan rifjar Masopust upp úrslitaleikinn fyrir 53 árum.

Masopust lék einnig með Tékkóslóvakíu á HM 1958 og EM 1960, þar sem liðið endaði í 3. sæti.

Hann hóf ferilinn með FK Teplice en gekk í raðir Dukla Prag 1952 og lék með liðinu í 16 ár. Masopust, sem var miðjumaður, lauk svo ferlinum með Crossing Molenbeek í Belgíu.

Masopust gerðist þjálfari eftir að leikmannaferlinum lauk og stýrði m.a. Dukla Prag og landsliði Tékkóslóvakíu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×