Erlent

Bandaríkjaher mögulega lengur í Afganistan

Atli Ísleifsson skrifar
Ashraf Ghani tók við embætti forseta Afganistans af Hamid Karzai á síðasta ári.
Ashraf Ghani tók við embætti forseta Afganistans af Hamid Karzai á síðasta ári. Vísir/AFP
Ashraf Ghani, forseti Afganistans, segir hugsanlegt að endurskoða þurfi áður gefinn frest Bandaríkjastjórnar um að búið verði að kalla alla bandaríska hermenn heim frá Afganistan innan tveggja ára.

Barack Obama Bandaríkjaforseti segist staðráðinn í að síðustu hermenn Bandaríkjahers verði farnir frá Afganistan fyrir árslok 2016 og að þá muni afgönsk stjórnvöld sjá um að tryggja öryggi borgara í landinu.

Uppreisnarmenn talibana hafa fjölgað árásum síðasta árið og hafa sjálfir lýst yfir sigri á hendur Bandaríkjamönnum.

Ghani segir í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CBS að frestir sem þessir ættu ekki að vera grafnir í stein.

Ósætti um hvenær Bandaríkjaher skyldi hverfa frá Afganistan hafði mjög neikvæð áhrif á samskipti Obama og forvera Ghani í starfi forseta Afganistans, Hamid Karzai.

Í frétt BBC segir að um 13 þúsund bandarískir hermenn séu nú í Afganistan, en alþjóðlegt friðargæsluverkefni á vegum NATO lauk í síðasta mánuði. Bandarísku hermennirnir vinna nú að því að þjálfa og styðja við bakið á afgönskum lögreglumönnum og hermönnum.

Þegar friðargæsluverkefni NATO í Afganistan stóð sem hæst voru rúmlega 130 þúsund manns frá fimmtíu þjóðríkjum þar starfandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×