Lífið

Frá Of Monsters and Men til Berlínar

Guðrún Ansnes skrifar
Strákarnir sitja sveittir við að semja nýtt efni á milli þess sem þeir drekka í sig menninguna í Berlín.
Strákarnir sitja sveittir við að semja nýtt efni á milli þess sem þeir drekka í sig menninguna í Berlín. Vísir/Chris marxen
Árni Guðjónsson, fyrrverandi hljómborðsleikari hljómsveitarinnar Of Monsters and Men, vinnur nú að nýrri plötu ásamt hljómsveit sinni One Week Wonder. Hljómsveitin, sem hefur komið sér fyrir í Berlín undanfarna mánuði, hyggst herja á stúdíó í lok febrúar og útgáfu í mars.

„Efni plötunnar verður svolítið í anda The Doors en meira elektróskotið,“ segir Árni en ásamt honum skipa hljómsveitina þeir Magnús Benedikt Sigurðsson og Helgi Kristjánsson.

„Platan kemur einungis út á netinu þar sem hægt verður að nálgast hana ókeypis en það verður tekið á móti frjálsum framlögum,“ segir Árni en allskostar valfrjálst verður að greiða fyrir plötuna. „Uppi eru hugmyndir um að gefa hluta þess ágóða sem safnast til góðgerðarmála en það mun koma í ljós,“ segir Árni.

Platan mun einungis innihalda frumsamið efni en sveitin er einna þekktust fyrir ábreiðu lagsins Einn dans við mig frá árinu 1984 sem Hermann Gunnarsson flutti. „Okkur langar svo að fylgja plötunni eftir og stefnum á táfýlutúr þar sem við spilum á sóðabúllum, gistum í bílnum og förum kannski að rífast og sættumst svo aftur,“ segir Árni spenntur fyrir framhaldinu.


Tengdar fréttir

Frá Airwaves til OMAM

Kamilla Ingibergsdóttir hefur unnið fyrir Iceland Airwaves í 6 ár en er nú að fara að vinna fyrir hljómsveitina Of Monsters and Men.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×