Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur stjórnarandstöðunni miðað vel að semja við Sjálfstæðisflokkinn um þinglok, en erfiðara hefur reynst að ná samkomulagi milli stjórnarandstöðu og Framsóknarflokksins.
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, vildi þó ekki tjá sig um hvernig viðræður hefðu gengið. Hann segir engar viðræður í gangi eins og stendur.
Kvótasetning á makríl og breytingar á rammaáætlun standa helst í vegi fyrir þinglokum.
Nú eru þrjár vikur síðan þingið átti að ljúka störfum samkvæmt starfsáætlun þess. Mörg mikilvæg mál bíða afgreiðslu. Einar K. Guðfinnsson, forseti þingsins segir æskilegt að þingi fari að ljúka.
Fyrirhugaður er þingfundur næstkomandi mánudag. Forseti segir miklu máli skipta að sátt náist fyrir þann fund. „Ég hef boðað til þingfundar í næstu viku óháð því hvernig samningaviðræður ganga. Það er mjög mikilvægt að sátt náist milli þingflokka um þinglok svo sá fundur geti verið sem árangursríkastur,“ segir Einar.