Fótbolti

Aron fékk aðeins tíu mínútur í stóru tapi gegn Brasilíu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Aron fagnar hér marki sínu gegn Kúbu í Gullbikarnum síðastliðið sumar.
Aron fagnar hér marki sínu gegn Kúbu í Gullbikarnum síðastliðið sumar. Vísir/Getty
Aron Jóhannsson, leikmaður Werder Bremen og bandaríska landsliðsins í fótbolta, fékk aðeins ellefu mínútur í 1-4 tapi gegn Brasilíu í æfingarleik í kvöld en Barcelona mennirnir Neymar og Rafinha skoruðu þrjú af fjórum mörkum brasilíska liðsins.

Aron var líkt og í æfingarleiknum gegn Perú um helgina á bekknum til að byrja með en Jurgen Klinsmann tefldi fram Jozy Altidore í fremstu víglínu í báðum leikjum.

Virtist það ekki vera að gera neinar rósir en Brasilía komst 4-0 yfir með tveimur mörkum frá Neymar og mörkum frá Rafinha og Hulk. Varamaðurinn Daniel Williams klóraði í bakkann fyrir bandaríska liðið á 94. mínútu en Aron komst ekki á blað í leiknum.

Rafinha, leikmaður Barcelona, skoraði fyrsta mark sitt fyrir Brasilíu í leiknum en þetta var aðeins annar leikur hans fyrir þjóðina. Ákvað hann á dögunum að leika fyrir brasilíska landsliðið en bróðir hans, Thiago, leikur fyrir það spænska.

Þá gerðu Mexíkó og Argentían jafntefli en Sergio Agüero og Lionel Messi jöfnuðu metin með tveimur mörkum á síðustu fimm mínútum leiksins eftir að Javier Hernandez og Hector Herrera komu Mexíkó yfir.

Þá vann Kosta Ríka óvæntan 1-0 sigur á Úrúgvæ en Úrúgvæ lék án Luis Suárez og Edinson Cavani í leiknum.



Æfingarleikir gærdagsins í Suður- og Mið-Ameríku:

Bandaríkin 1-4 Brasilía

Kosta Ríka 1-0 Úrúgvæ

Kólumbía 1-1 Perú

Mexíkó 2-2 Argentína




Fleiri fréttir

Sjá meira


×