Erlent

Segir að Tyrkir muni sjá eftir því að hafa skotið flugvélina niður

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimir Putin flutti ávarp í Kreml.
Vladimir Putin flutti ávarp í Kreml. Vísir/EPA
Vladimir Putin, forseti Rússlands, segir að Tyrkir muni sjá eftir því að hafa skotið rússneska sprengjuvél niður. Hann sakaði yfirvöld í Tyrklandi um að styðja við bakið á Íslamska ríkinu og sagði Rússar ættu í útistöðum við leiðtoga Tyrklands, en ekki Tyrki sjálfa.

„Ef einhver telur að aðgerðir okkar muni einskorðast við efnahagsþvinganir, hafa þeir rangt fyrir sér,“ sagði Putin. „Við munum minna þá á það sem þeir gerðu og þeir munu sjá eftir því.“

Vladimir Putin, forseti Rússlands.Vísir/EPA
Þetta sagði forsetinn í árlegu sjónvarpsávarpi í Rússlandi. Í ávarpinu var barátta Rússlands gegn hryðjuverkum í forgrunni. Haldin var mínútu þögn fyrir rússnesk fórnarlömb hryðjuverka, þar á meðal þeir 224 sem létu lífið þegar rússnesk flugvél var sprengd upp yfir Sinaiskaga í lok október.

Vígamenn hliðhollir ISIS hafa haldið því fram að þeir hafi sett sprengju sem grandaði vélinni um borð, en það hefur ekki verið staðfest.

Putin sagði í ræðu sinni að Tyrkir veittu vígamönnum ISIS skjól og styddu við bakið á þeim. Hann fordæmdi þá ákvörðun þeirra að skjóta niður flugvélina, en Tyrkir segja henni hafa verið flogið inn í lofthelgi Tyrklands og að þeir hafi varað flugmenn vélarinnar við tíu sinnum á fimm mínútum. Því neita Rússar alfarið.


Tengdar fréttir

Rússar birta meintar sannanir

Birta gervihnattamyndir og drónamyndbönd sem eiga að sanna að Tyrkir kaupi olíu af Íslamska ríkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×