Erlent

Krefjast þess að dómur yfir sádi-arabískum bloggara verði ógiltur

Atli Ísleifsson skrifar
Raif Badawi var á síðasta ári dæmdur í 10 ára fangelsi og til að sæta þúsund svipuhöggum. Auk þess var honum bannað að ferðast í 10 ár eftir að hann er leystur úr haldi, bannað að skoða fréttamiðla og dæmdur til að greiða um 30 milljónir króna í sekt.
Raif Badawi var á síðasta ári dæmdur í 10 ára fangelsi og til að sæta þúsund svipuhöggum. Auk þess var honum bannað að ferðast í 10 ár eftir að hann er leystur úr haldi, bannað að skoða fréttamiðla og dæmdur til að greiða um 30 milljónir króna í sekt. Mynd/Amnesty
Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa ákveðið að fresta fyrirhugaðri hýðingu á bloggaranum Raif Badawi. Til stóð að hann fengi fimmtíu svipuhögg á morgun en læknar álíta hann ekki vera í standi til þess eftir að hafa hlotið fimmtíu högg þann 9. janúar síðastliðinn.

Í frétt Guardian segir að Badawi eigi yfir höfði sér tíu ára fangelsi og 950 svipuhögg til viðbótar næstu nítján vikurnar auk sektargreiðslu vegna skrifa sinna á bloggsíðu sinni. Badawi var tekinn höndum árið 2012.

Mál Badawi hefur vakið mikla athygli á alþjóðavísu og hafa mannréttindasamtökin Amnesty International látið málið sér varða. Í fréttatilkynningu frá samtökunum segir að stjórnvöld í Sádí-Arabíu hafi fordæmt árásina á Charlie Hebdo í París og lýst henni sem heigulsverki. „Næsta dag beittu stjórnvöld í Sádí-Arabíu villimannlegri refsingu gegn Raif Badawi fyrir að nýta tjáningarfrelsið. Þessa hræsni stjórnvalda í Sádí-Arabíu verður að afhjúpa.“

Raif Badawi fékk fyrstu fimmtíu svipuhöggin þann 9. janúar, en að sögn vitna var hann fluttur í járnum að torgi fyrir framan moskuna eftir að bænastund lauk. Þar hafi hann fengið fimmtíu svipuhögg á bak og fætur í viðurvist almennings og fulltrúa stjórnvalda.

Fimmtíu högg á fimmtán mínútum

„Sjónarvottur sagði að Raif Badawi hafi ekki sagt neitt en augljóst hafi verið að hann hafi kvalist mikið. Refsingin tók 15 mínútur. Að því loknu var ekið með hann í burtu.

Óttast er að Raif Badawi muni sæta frekari húðstrýkingu. Í dómsorði yfir honum er kveðið á um að hann eigi að sæta eigi fleiri en 50 svipuhöggum í hvert sinn og að vika hið minnsta skuli líða milli húðstrýkinga. Þessi refsing brýtur í bága við algert bann gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð og refsingu í alþjóðalögum.

Föstudaginn 16. janúar var Raif Badawi fluttur úr klefa sínum og færður á læknastofu til skoðunar í fangelsinu þar sem hann er vistaður. Þar var lækni fangelsins gert að skera úr um fresta ætti annarri umferð húðstrýkinga vegna sára sem Raif hlaut við sömu refsingu viku áður. Læknirinn úrskurðaði að Raif myndi ekki þola frekari svipuhögg í bráð þar sem sárin væru ekki gróin. Óttast er að hann muni sæta 50 svipuhöggum til viðbótar á morgun, föstudaginn 23. janúar, þrátt fyrir fjölda mótmæla fyrir framan sendiráð Sádí-Arabíu um heim allan og áköll frá ýmsum opinberum aðilum þeirra, á meðal mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna sem sagði húðstrýkingu „í það minnsta vera tilbrigði við grimmilega og ómannlega refsingu...sem bönnuð er samkvæmt alþjóðlegum mannréttindalögum, sérstaklega samningnum gegn pyndingum sem Sádí-Arabía hefur fullgilt“.

Vanvirti íslam

Raif Badawi var dæmdur þann 7. maí 2014 í 10 ára fangelsi og til að sæta 1.000 svipuhöggum. Auk þess var honum bannað að ferðast í 10 ár eftir að hann er leystur úr haldi, honum bannað að skoða fréttamiðla og hann dæmdur til að greiða um 30 milljónir króna í sekt. Dómurinn yfir honum kom í kjölfar þess að hann stofnaði vefsíðu helgaða frjálslyndi. Hann var talinn hafa „vanvirt íslam“.

Sms-félagar Íslandsdeildar Amnesty International mótmæla nú harðlega þeirri refsingu sem Raif Badawi sætir og þrýsta á stjórnvöld að sleppa honum tafarlaust og án skilyrða úr haldi vegna þess að hann er samviskufangi og í haldi fyrir friðsamlega tjáningu skoðana sinna. Þeir hvetja stjórnvöld til að ógilda dóminn yfir honum,“ segir í tilkynningunni frá Amnesty.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×