Erlent

Myndband af lögreglu skjóta saklausan mann til bana loks birt eftir dómsúrskurð

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Myndbandið er ekki fyrir viðkvæma.
Myndbandið er ekki fyrir viðkvæma.
Síðan lögregla í bænum Gardena í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum skaut ungan óvopnaðan mann til bana fyrir tveimur árum hafa yfirvöld í borginni neitað að sýna opinberlega myndband sem náðist af skotárásinni.

Nú hefur myndbandið verið gert opinbert eftir að dómari úrskurðaði að borginni væri það skylt að láta fjölmiðlum það í té. Myndbandið má sjá hér að neðan. Það er fullt tilefni til þess að vara viðkvæma við efni myndbandsins.

Í myndbandinu má sjá þrjá menn sem fyrir mistök voru grunaðir um að hafa verið að stela hjólinu sem stendur fyrir aftan þá. Lögregla skipar mönnunum að setja hendur upp í loft en einn þeirra virðist ráðvilltur, setur hendurnar upp og niður á víxl en þegar hann tekur af sér derhúfuna skýtur lögreglan að honum.

Af myndbandinu að dæma stóð hvorki lögreglumönnum né umhverfinu nokkur ógn af manninum en lögregluyfirvöld hafa sagt að myndbandið sem tekið er úr lögreglubílnum segi ekki alla söguna. Lögregla kom á vettvang vegna þess að tilkynnt hafði verið um þrjá menn sem staðnir hefðu verið að því að reyna að stela hjóli fyrir utan verslun. Fyrir mistök var stuldurinn merktur sem rán en það felur í sér að beitt sé við þjófnaðinn einhvers konar hótun eða vopni.

Þegar lögreglumaður kom á staðinn sá hann tvo menn á hjólum nálægt versluninni. Þeir voru að aðstoða vin sinn sem átti hjólið sem stolið hafði verið en lögreglumaðurinn taldi þá fyrir mistök vera þjófana. Diaz Zeferino, sem var bróðir mannsins sem átti stolna hjólið, hljóp upp að mönnunum tveimur þegar lögregla kom á vettvang. Þetta kemur fram í minnisblaði saksóknara í Los Angeles.

Maðurinn sem lést hét Diaz Zeferino og var þrjátíu og fimm ára gamall. Fjölskylda hans fékk 4,7 milljónir Bandaríkjadollara í bætur en það eru um 629 milljónir íslenskra króna. Dómarinn sagði myndbandið eiga erindi við almenning sérstaklega í ljósi þessara skaðabóta sem borgin greiddi ættingjum Zeferino. Það voru Los Angeles Times, the Associated Press og Bloomberg sem kölluðu eftir því að myndbandið yrði birt.

Justified or cold-blooded killing? This is the video the city of Gardena didn't want you to see: Three officers opening...

Posted by Los Angeles Times on Tuesday, July 14, 2015



Fleiri fréttir

Sjá meira


×