Innlent

Telur rétt á að taka við tíu sinnum fleiri flóttamönnum

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar segist telja að stjórnvöld eigi að bjóðast til að taka við fimmhundruð flóttamönnum frá Sýrlandi en flokkurinn undirbýr þingmál þess efnis sem verður lagt fram á haustdögum.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í kvöldfréttum í gær að íslensk stjórnvöld þyrftu að hafa  hraðar hendur og rétta hjálparhönd vegna þess neyðarástands sem væri hjá flóttamönnum. Stjórnvöld hafa verið gagnrýnt fyrir nánasarlegt framlag til flóttamannahjálpar en fyrirhugað er að taka á móti fimmtíu flóttamönnum á tveimur árum.

Ráðherra vill skoða fjölgun

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra segist tilbúin til að skoða að fjölga í þessum hópi segist þó ekki vilja nefna hversu mörgum til viðbótar verði hægt að hjálpa. Hún segist fagna vilja sveitarfélaga og einstaklinga til að gera meira og vill að þúsundir fólks sem hafa lýst yfir vilja til að taka á móti fleiri flóttamönnum stígi fram og bjóði fram aðstoð sína. Það þurfi húsnæði, atvinnu og föt fyrir þetta folk. Hún segist fagna vilja einstaklinga og sveitarfélaga til að gera meira. Það sé undir þeim komið hversu mörgum flóttamönnum við getum tekið á móti.

Segir núverandi ríkisstjórn hafa aukið aðstoðina

Eygló sagði ennfremur að stjórnarandstaðan hefði snúið við blaðinu í málefnum flóttamanna. Hún hefði skorið niður aðstoðina í stjórnartíð sinni en vildi nú taka við flóttamönnum.

Árni Páll Árnason segir alrangt að síðasta ríkisstjórn hafi ekki viljað hjálpa flóttamönnum.  Uppi séu fordæmalausar aðstæður í Evrópu og hann undrast að ráðherra sé að draga umræðuna ofan í forarpytt hefðbundins stjórnmálaþrass.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður Samfylkingarinnar undirbýr þingsályktunartillögu um að taka beri á móti fimmhundruð flóttamönnum og leitar að meðflutningsmönnum úr öllum flokkum. „Þetta er brýnt mál fyrir okkur öll og þjóðin verður að standa saman um það,“ segir Árni Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×