Fótbolti

Varð að vísa dreng í 5. flokki útaf vegna kynþáttaníðs

Stefán Árni Pálsson skrifar
Aron dæmdi leik Fjölnis og ÍBV í úrslitakeppni 5. flokks í dag.
Aron dæmdi leik Fjölnis og ÍBV í úrslitakeppni 5. flokks í dag.
„Það sem átti sér stað var að brotið var á leikmanni Fjölnis, sem er dökkur á hörund. Eftir brotið voru menn eitthvað að ýta í hvorn annan og ég fer til þeirra og ætla að róa menn niður,“ segir ‎Aron Elvar Finnsson sem dæmdi leik Fjölnis og ÍBV í 5. flokki karla í knattspyrnu í dag.

Aron varð að vísa leikmanni ÍBV af velli þar sem hann gerði sig sekan um kynþáttafordóma í garð leikmanns í liði Fjölnis. Leikurinn var hluti af úrslitakeppninni í flokki B-­liða sem fram fór í Boganum á Akureyri.

„Leikmaður Fjölnis gengur þá í burtu og málið virðist búið. Þá kallar leikmaður ÍBV á eftir honum rasísk ummæli sem að sjálfsögðu eiga aldrei að heyrast, hvað þá hjá svona ungum krökkum. Við það reiðist leikmaður Fjölnis, reynir að ráðast á leikmann ÍBV og kýlir hann í magann. Ég sá ekki annað í stöðunni en að senda báða aðila útaf.“

Aron segir að viðbrögð foreldrana hafi verið lítil.

„Ég held að þau hafi ekki vitað hvað fór fram, þar sem að þau sátu öll fyrir aftan annað markið, en atvikið átti sér stað á hinum enda vallarins. Aðrir leikmenn vissu í raun ekki hvað þeir ættu að gera eða segja og var leikurinn mjög skrýtinn eftir atvikið, enda hafa þeir kannski ekki lent í atviki sem þessu áður, eða ég vona það allavega.“

Aron segir að þjálfari Fjölnis hafi komið og rætt við hann eftir leikinn.

„Hann sagði að þetta mál hefði verið útkljáð á milli þjálfara og leikmaður ÍBV hefði beðist afsökunar. Eðlilega var hann ekki sáttur samt sem áður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×