Innlent

Árni Páll hugleiðir úrbætur

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
 Árni Páll Árnason segir fyllstu ástæðu til að hugleiða hvað kunni að vera til úrbóta í innri uppbyggingu flokksins.
Árni Páll Árnason segir fyllstu ástæðu til að hugleiða hvað kunni að vera til úrbóta í innri uppbyggingu flokksins. Vísir/Ernir
Andrúmsloftið var spennuþrungið þegar kynna átti úrslit um formannskjör á landsfundi Samfylkingar í Súlnasal Hótel Sögu í gær. Mikil töf varð á því að kynna úrslitin, þau átti að kynna korter í sjö en voru kynnt rúmlega hálf átta. Um var að ræða rafræna kosningu og það var kurr í fundargestum vegna tafarinnar.

Þegar í ljós kom að Árni Páll Árnason var endurkjörinn formaður með eins atkvæðis mun gat fólk í báðum fylkingum ekki leynt vonbrigðum sínum.

Hann hlaut 241 atkvæði, eða 49,49 prósent atkvæða, en Sigríður Ingibjörg Ingadóttir 240 atkvæði, eða 49,28 prósent atkvæða. Anna Pála Sverrisdóttir hlaut eitt atkvæði.

Árni Páll ávarpaði landsfundinn og var sjálfur greinilega hissa á niðurstöðunni og sagði hana sérkennilega. Í viðtali við Fréttablaðið sagðist hann myndu hlusta eftir gagnrýni en ítrekaði að hann hefði ekki orðið var við hana. „Ég hef ekki heyrt nein efnisatriði sem menn leggja mér til lasts um eitthvað sem ég hefði getað gert betur en það er full ástæða fyrir mig til að hlusta eftir því.“

Sigríður Ingibjörg varð sjálf undrandi og ánægð með meðbyrinn. Hún ítrekaði þó að niðurstaðan yrði ekki að óvinafagnaði. „Ég get eiginlega ekki lýst yfir vonbrigðum með niðurstöðuna. Ég óska Árna Páli Árnasyni innilega til hamingju með sigurinn. Ég finn það að þessi þrýstingur sem ég fann fyrir er raunverulegur. Það er skýr krafa um breytingar í áherslum flokksins. Við förum saman í það. Það verður enginn óvinafagnaður í Samfylkingunni því við eigum óvin í hægri ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og nú hefjum við sóknina fyrir næstu kosningar og munum öll fara saman í það.“

Árni Páll segir þennan litla mun óþægilegan en flokkurinn verði metinn eftir því hvernig hann vinnur eftir Landsfundinn. „Þetta er óþægilega tæpt og leggur mér ríkar skyldur á herðar sem ég mun reyna að axla eins og ég mögulega get.“

Hann sagðist í stefnuræðu sinni hafa lagt allt kapp á að halda Samfylkingunni saman og greindi frá því að í kjölfar kosningaósigursins hefði Össur Skarphéðinsson tekið hann afsíðis og spurt hvort hann gerði sér grein fyrir því að hann gæti verið síðasti formaður Samfylkingarinnar. Deilir hann þessum áhyggjum með Össuri?

„Ég deildi þeim áhyggjum með honum þá og einsetti ég mér að vinna að innri uppbyggingu flokksins. Ég held að það sé full ástæða til þess að hugleiða það mjög vandlega hvað kunni að vera til úrbóta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×