Fótbolti

Steinþór skoraði sigurmark Viking í Íslendingaslag | Aron tryggði Álasund þrjú stig

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Vísir/Getty
Steinþór Freyr Þorsteinsson skoraði sigurmark Viking í 1-0 sigri á lærisveinum Rúnars Kristinssonar í Lilleström í norska boltanum í kvöld. Með sigrinum heldur Viking lífi í von sinni um að ná Evrópusæti.

Steinþór, Jón Daði Böðvarsson og Indriði Sigurðsson voru allir í byrjunarliði Viking í dag en Árni Vilhjálmsson var í byrjunarliði Lilleström í leiknum. Björn Daníel Sverrisson og Finnur Orri Margeirsson byrjuðu leikinn á bekknum en komu báðir inná.

Steinþór skoraði sigurmarkið um miðbik fyrri hálfleiks eftir sendingu frá Andre Danielsen en hvorugu liði tókst að bæta við marki þrátt fyrir ágætis tilraunir. Lilleström er með 35 stig þegar fjórar umferðir eru eftir og sigla lygnan sjó um miðja deild.

Þá var Aron Elís Þrándarson hetja Álasund í 2-1 sigri á Sandefjord á heimavelli í kvöld. Aron kom inn af bekknum og skoraði sigurmark Álasund á 92. mínútu.

Aron byrjaði á bekknum en kom inná í fyrri hálfleik þegar botnlið Sandefjord var 1-0 yfir. Það virtist allt ætla að stefna í að Sandefjord myndi stela sigrinum en á 89. mínútu tókst Mostafa Abdellaoue að jafna metin en leiknum var ekki lokið.

Aron Elís skoraði sigurmarkið á 92. mínútu eftir undirbúning Akeem Latifu en með sigrinum skaust Álasund upp fyrir Haugesund í 10. sæti norsku úrvalsdeildarinnar.

Úrslit dagsins:

Haugesund 1-2 Odd

Álasund 2-1 Sandefjord

Molde 4-0 Tromsö

Viking 1-0 Lilleström




Fleiri fréttir

Sjá meira


×