Erlent

Páfi segir Guð gráta þjáningar barna

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Frans páfi kom í sína fyrstu heimsókn til Bandaríkjanna fyrir helgi, en henni lauk í gær.
Frans páfi kom í sína fyrstu heimsókn til Bandaríkjanna fyrir helgi, en henni lauk í gær.
Frans páfi hitti í heimsókn sinni til Bandaríkjanna í gær fimm einstaklinga, þrjár konur og tvo karla, sem í æsku voru beittir kynferðisofbeldi. Ekki er vitað hversu stór hluti þeirra var misnotaður af prestum, en á fréttavef Breska ríkisútvarpsins, BBC, er páfi sagður hafa sagt þeim að kirkjufólk og biskupar sem beittu slíku ofbeldi eða létu hjá líða að vernda börn, þyrftu að svara fyrir gjörðir sínar.

„Guð grætur vegna þessara þjáninga,“ sagði hann við fólkið, sem nú er fullorðið en varð fyrir ofbeldinu á barnsaldri. Fundur með fólkinu átti sér stað í prestaskóla í Pennsylvaníu í gærmorgun, en í tilkynningu sem send var út eftir hann kemur fram að gerendur í málum fólksins hafi verið fjölskyldumeðlimir, kennarar eða prestar.

Páfi lýsti hryggð sinni yfir þeim skiptum þegar ekki var tekið mark á fórnarlömbum og fjölskyldum þeirra þótt glæpir hefðu verið tilkynntir. „Verið viss um að hinn helgi faðir bæði heyrir og trúir,“ sagði hann við þolendur glæpanna.

Heimsókn páfa til Bandaríkjanna lauk í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×