Lífið

Hrædd um að ég verði búin að teikna allt um áramótin

adda soffia ingvarsdóttir skrifar
Elsa Nilsen ásamt myndunum sínum, sem fjölgar með degi hverjum.
Elsa Nilsen ásamt myndunum sínum, sem fjölgar með degi hverjum. Fréttablaðið/Vilhelm
„Ég er eiginlega búin að teikna allt sem er í kringum mig og flest allt sem ég hef verið að borða,“ segir Elsa Nilsen, grafískur hönnuður. Hún byrjaði að teikna litlar myndir um áramót, eina á dag líkt og dagbók, af hlutum sem eru í kringum hana.

Myndirnar eru mjög nákvæmar.
„Ég hugsaði að ég þyrfti að geta teiknað myndina á sem stystum tíma. Þannig eiginlega kviknaði hugmyndin að því að hafa þær svona litlar,“ segir hún, en myndirnar eru teiknaðar á blöð sem eru 7x7 sentimetrar að stærð. Hún reynir að tengja myndirnar við atburði dagsins, ef hún mögulega getur það. „Eins og með myndina af tannstönglinum. Klukkan var orðin margt svo ég gat ekki teiknað eitthvað flókið. Ég þurfti að nota tannstöngul til að losa um óreganó í tönninni og þar með var hugmyndin komin,“ segir hún og hlær.

Þessi var gerð í tilefni Star Wars dagsins.
Elsa segir verkefnið vera farið að vinda upp á sig, og fólk sé farið að senda henni hugmyndir að teikningum. „Það má eiginlega segja að fólk sé orðið hluti af dagbókinni minni. Ég fæ sendar hugmyndir og svo eru margir búnir að panta hjá mér myndirnar.“ Stefnan er að teikna myndirnar að minnsta kosti út árið og halda sýningu í byrjun næsta árs. „Mig langar að setja þær allar saman á sýningu og jafnvel selja þær þar. Það er búið að panta nokkrar myndir sem ég er búin að taka frá, en það fær þær enginn fyrr en eftir sýninguna,“ segir hún og hlær. Aðspurð hvort hún haldi að hún muni teikna allt næsta ár, segist hún ekki vera viss. „Mögulega verð ég búin að teikna allt þá. Þetta nefnilega má bara vera einn hlutur og ekki mjög flókinn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×