Enski boltinn

Chelsea setur þrjá í bann vegna atviksins í París

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr myndbandi sem sýnir uppákomuna á brautarpallinum umrædda í París.
Úr myndbandi sem sýnir uppákomuna á brautarpallinum umrædda í París. Vísir/AFP
Chelsea er byrjað að refsa stuðningsmönnum sínum vegna uppákomu sem átti sér stað eftir leik liðsins gegn PSG í Meistaradeild EVrópu í vikunni.

Eftir leikinn, sem lyktaði með 1-1 jafntefli, meinuðu nokkrir stuðningsmanna Chelsea þeldökkum manni að fara um borð í neðanjarðarlest. Atvikið var tekið upp á myndband og hefur vakið mikla reiði, bæði í Englandi og Frakklandi.

Sjá einnig: Fórnarlamb Chelsea-rasistanna: Það á að fangelsa þessa menn

Chelsea hefur borið kennsl á þrjá menn sem tóku þátt í þessu og sett þá í bann frá heimaleikjum félagsins. Málið verður þó rannsakað áfram eins og fram kom í yfirlýsingu félagsins.

„Ef það kemur í ljós að nægar sannanir séu fyrir hendi verða viðkomandi aðilar settir í ævilangt bann. Við höfum fengið mikið af upplýsingum og erum þakklátir þeim fjölmörgu stuðningsmönnum Chelsea sem hafa orðið að liði,“ sagði í yfirlýsingunni.

„Við erum kynþáttahatarar - og þannig viljum við hafa það,“ sungu stuðningsmennirnir þegar þeir ýttu manninum frá lestinni.

Sjá einnig: Stuðningsmenn Chelsea hentu manni út úr lest í París

Chelsea mun greina frekar frá rannsókninni fyrir blaðamannafund knattspyrnustjórans Jose Mourinho á morgun en stjórinn sjálfur mun svo svara spurningum fjölmiðlamanna um atvikið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×