Erlent

Heimilar japanska hernum að taka þátt í hernaðaraðgerðum erlendis

Atli Ísleifsson skrifar
Shinzo Abe forsætisráðherra hafði mikið talað fyrir samþykkt frumvarpanna en stjórnarandstaðan gagnrýndi þau harðlega.
Shinzo Abe forsætisráðherra hafði mikið talað fyrir samþykkt frumvarpanna en stjórnarandstaðan gagnrýndi þau harðlega. Vísir/EPA
Efri deild japanska þingið staðfesti í dag umdeild frumvörp sem kveða á um að her landsins megi nú taka þátt í hernaðaraðgerðum á erlendri grundu. Þátttakan er þó háð ákveðnum skilyrðum.

Um er að ræða meiriháttar breytingu á utan- og varnarmálastefnu Japans, sem hefur einkennst af friðarstefnu allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.

148 þingmenn greiddu atkvæði með frumvörpunum en níutíu gegn. Neðri deild þingsins samþykkti frumvörpin í júlí síðastliðinn.

Með lagabreytingunum er níunda grein stjórnarskrárinnar túlkuð á nýjan hátt, en greinin leggur blátt bann við að alþjóðlegar deilur skuli leystar með vopnuðum átökum.

Með nýrri túlkun verður  japanska hernum hins vegar heimilt, að takmörkuðu leyti þó, að verja bandamenn sína í vopnuðum deilum á erlendri grundu. Þátttaka og störf japanskra hermanna erlendis voru áður einskorðuð við mannúðarstörf.

Shinzo Abe forsætisráðherra hafði mikið talað fyrir samþykkt frumvarpanna en stjórnarandstaðan gagnrýndi þau harðlega.

Ríkisstjórnin segir breytinguna nauðsynlega til að takast megi á við hernaðarlegan uppgang nágrannaríkja á borð við Kína og Norður-Kóreu.

Fjölmenn mótmæli gegn lagabreytingum hafa verið í landinu á síðustu mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×