Erlent

Otur með astma lærir að nota púst

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Mishka þarf að nota pústið það sem eftir er af lífi sínu.
Mishka þarf að nota pústið það sem eftir er af lífi sínu.
Mishka, íbúi í sjávardýragarðinum í Seattle, er fyrsti oturinn í heiminum sem greindur hefur verið með astma. Starfsmenn dýragarðsins hafa á undanförnum dögum kennt dýrinu hvernig nota skal púst svo bærilegra verði að lifa með sjúkdómnum. AP greinir frá.

Sumarið var þurrt í Bandaríkjunum og olli það því að skógareldar loguðu í fjölmörgum ríkjum. Washington-ríki, þar sem Seattle er staðsett, varð fyrir barðinu á skógareldum. Dýralæknir greindi Mishka með astma þegar dýrið átti í erfiðleikum með að anda á meðan reykjarmökkur frá eldunum lá yfir borginni.

Öndunarerfiðleikarnir hafa haldið áfram og hefur því verið gripið til þess ráðs að kenna Mishka, sem er árs gamall sjávarotur, hvernig púst virka. Umsjónarmaður dýrsins í dýragarðinum vinnur nú í því að venja það á að anda pústinu að sér áður en það fær matarbita. Efnið í pústinu er nákvæmlega það sama og í pústi fólks sem þjáist af astma.

Atvikið hefur orðið til þess að menn hafa velt loftgæðum í heiminum fyrir sér en á síðasta áratug hefur tíðni astma í fólki aukist um fjórðung. Talið er víst að eiturefnum í andrúmsloftinu sé um að kenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×