Erlent

Fjögur lík fundin til viðbótar

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Indónesískir hermenn bera lík farþega.
Indónesískir hermenn bera lík farþega. nordicphotos/getty
Leitarsveitir hafa nú fundið fjögur lík til viðbótar úr farþegaflugvél flugfélagsins AirAsia í Jövuhafi. Alls hafa 34 lík fundist ásamt fimm stórum hlutum flugvélarinnar.

Vélin hrapaði í hafið skammt frá eyjunni Borneó í síðustu viku en vélin var á leið frá Indónesíu til Singapúr þegar hún hvarf af ratsjám. 162 manns voru um borð í vélinni og flestir frá Indónesíu.

Kafarar hafa þurft að fresta leitinni að skrokki vélarinnar vegna slæms veðurs en talið er að flest líkin séu föst þar. Talið er að slæmt veður hafi verið helsta ástæðan fyrir því að vélin hrapaði en enn á eftir að finna svarta kassann úr flugvélinni sem skráir samskipti í flugstjórnarklefanum.

Flugvélin var í næstum 10.000 metra hæð þegar flugstjórinn bað um að fá að hækka flugið í 11.500 metra til að forðast slæmt veður. Það voru seinustu samskipti flugstjórans við stjórnstöð flugvallarins.

Næstum því 30 skip taka nú þátt í leitinni ásamt sex flugvélum, fjórtán þyrlum og hópi rússneskra og indónesískra kafara. „Við erum í kappi við tímann og veðrið í þessari leit,“ sagði formaður björgunarsveita Indónesíu, Tatang Zainudin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×