Erlent

Íbúar í Buenos Aires fundu jarðskjálftann

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Michelle Bachelet forseti Chile
Michelle Bachelet forseti Chile Nordicphotos/AFP
Átta létust í jarðskjálftanum í Chile síðastliðið miðvikudagskvöld og um milljón manns yfirgáfu heimili sín í kjölfar skjálftans. Einnar manneskju er saknað.

Skjálftinn reið yfir rétt fyrir klukkan ellefu að íslenskum tíma og upptök hans voru um 232 kílómetra norðvestur af Santiago, höfuðborg Chile. Skjálftinn mun hafa varað í um þrjár mínútur og fundu Chilebúar fyrir nokkrum eftirskjálftum. 

Byggingar inni í landi léku á reiðiskjálfi og 4,5 metra flóðbylgja skall á ströndum Chile. Michelle Bach­elet, forseti Chile, ávarpaði þjóðina á miðvikudaginn.

„Enn og aftur horfumst við í augu við reiðarslag af völdum náttúrunnar,“ sagði hún og hvatti landsmenn til að halda sig frá ströndum landsins en yfirvöld lýstu yfir varúðarástandi vegna hættu á flóðbylgjum. Því hefur nú verið aflétt.

Jarðskjálftinn var öflugri en sá sem varð í Nepal í apríl síðastliðnum. Skjálftinn í Chile var 8,3 stig á Richt­erskvarða en sá sem varð í Nepal um 8,1 stig. Íbúar í Buenos Aires í Argentínu munu hafa fundið fyrir skjálftanum.

Með hliðsjón af mikilli eyðileggingu og mannfalli í Nepal mega Chile­búar teljast heppnir en skaðinn af skjálftanum er bara brot af eyðileggingunni sem varð í Nepal.

Árið 2010 reið yfir Chile fimmti stærsti jarðskjálfti sem mælst hefur, 8,8 stig. Sá skjálfti olli víðtækri eyðileggingu en 525 manns létust og 25 týndust.

Jarðskjálftar eru afar algengir á svæðinu en eftir jarðskjálftann árið 2010 vörðu stjórnvöld umtalsverðu fjármagni til að tryggja að viðlíka eyðilegging ætti sér ekki stað aftur. Viðbúnaðurinn virðist hafa virkað en eyðileggingin var ekki mikil miðað við styrk skjálftans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×