Erlent

Forsætisráðherra Ísraels: „Samkomulagið söguleg mistök“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Benjamin Netanyahu
Benjamin Netanyahu vísir/ap
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, fordæmir kjarnorkusamkomulag Írana sem náðist í morgun. Þetta kom fram í yfirlýsingu frá ráðherranum í kjölfar frétta um að samkomulag hafi náðst.

Bretland, Bandaríkin, Frakkland, Kína, Rússland og Þýskaland hafa undanfarin sjö ár unnið að því að sætta Írana til að tryggja að þeir geti ekki smíðað kjarnorkuvopn. Hafa þau meðal annars beitt viðskiptaþvingunum á undanförnum árum. Íranir hafa ávallt haldið því fram að vinna þeirra með kjarnorku væri af friðsamlegum toga.

„Af því sem ég hef heyrt get ég upplýst um að þetta samkomulag eru söguleg mistök í mannkynssögunni,“ segir Netanyahu. „Það er ekkert í því sem kemur í veg fyrir að Íranir geti búið til kjarnavopn heldur þvert á móti er þar að finna mikla eftirgjöf.“

Hann segir að auki muni Íran fá milljarða dollara sem ríkið geti nýtt til að að vígbúast og í kjölfarið dreift úr sér um Miðausturlönd.

„Ísrael skuldbatt sig til að koma í veg fyrir að Íran gæti búið til kjarnorkuvopn og við stöndum hart á því ennþá. Við leiðtoga heimsins vil ég segja að nú er tíminn til að sameinast gegn mestu ógn sem Ísraelsríki hefur staðið gegn.“

Enn liggur ekki fyrir hvað felst nákvæmlega í samkomulaginu en blaðamannafundur vegna samningsins verður haldinn innan skamms.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×