Skoðun

Ábyrgð ríkja til að vernda borgara sína

Kristjana Fenger skrifar
Undanfarið hef ég rannsakað konur á flótta og hvernig ofbeldi sem konur verða fyrir fellur að Flóttamannahugtakinu. Það er það hugtak sem úrskurðar um hvort einstaklingar fái stöðu flóttamanns eða ekki en til þess að fá veitta vernd á grundvelli þess þarf einstaklingur að uppfylla þó nokkur skilyrði. Um þetta væri hægt að skrifa fjölmörg orð en hér er stiklað á afar stóru.

Eitt af fjölmörgum vandamálunum við framgang kynbundinna ofsókna í málsmeðferð hælisumsókna er að ofbeldi á sér oft stað í einrúmi, framið af aðilum ótengdum ríkinu. Þessi staða getur leitt af sér veruleg sönnunarvandræði og reynir á hvort stjórnvöld og réttarkerfi séu í stakk búin að veita fórnarlömbum árangursríka vernd. Stundum veita ríki ekki slíka vernd þar sem ofbeldi er ekki gert refsivert eða ekki er aðhafst vegna brota sem eru kærð á grundvelli laga sem eru til staðar.

Rannsóknir og tölfræði benda til þess að gögn um kynbundið ofbeldi séu oft á tíðum ekki aðgengileg þar sem brotin eru ekki tilkynnt eða ekki er saksótt fyrir þau. Í ákveðnum ríkjum eru stjórnvöld ófús til að birta gögn og tölur er varða konur þar sem kynbundið ofbeldi er kerfisbundið þaggað niður. Því getur verið erfitt að nálgast upplýsingar og alþjóðlegar skýrslur um slík brot. Einnig getur verið vandamál að konur hafa víða í heiminum takmarkaðan aðgang að upplýsingum og að gögnum er byggja undir trúverðugleika hælisumsóknar.

Haldlítill listi

Tvær meginkenningar eru við lýði um hvers konar ábyrgð ríki bera á ofsóknum og mannréttindabrotum sem framin eru á þegnum þeirra af aðilum sem eru ótengdir ríkinu sjálfu.

Annars vegar er það sjónarmið um beina ábyrgð eða samsekt ríkis, en þá þarf ásetningur að liggja fyrir hjá ríki að bregðast ekki við ofsóknum og veita vernd. Ekki sé um ofsóknir að ræða ef ríkið er ekki í stakk búið til þess að vernda einstaklinginn og talið að ekki eigi að fordæma ríki fyrir að hafa ekki burði til að vernda borgara sína.

Hins vegar er það verndarsjónarmiðið og er aðalmarkmið þeirrar nálgunar að finna viðeigandi lausn á vandamálinu. Þar er fjarvera fullnægjandi verndar nóg til þess að ríkið beri ábyrgð og verndarandlagið gert að áherslupunkti og horft er á brotið út frá sjónarhóli þolanda en ekki geranda. Algengt er í ákvörðunum útlendingayfirvalda að litið sé til viðleitni heimaríkja umsækjanda til þess að bæta ástandið þrátt fyrir að sú viðleitni skili fórnarlömbunum mögulega engum árangri.

Í umræðu um alþjóðlega vernd er stundum talað um örugg ríki, þ.e. ríki sem talin eru vernda borgara sína fyrir ofbeldi eða öðru óréttlæti sem þeir kunna að verða fyrir og þaðan þurfi enginn að flýja og fá vernd í öðru ríki. Aftur á móti er hægt að færa fyrir því rök að slíkur listi sé haldlítill þar sem nær ómögulegt er að vita með vissu hvar ofsóknir hefjast og eiga sér stað.

Hægt er að spyrja sig hvort staða kvenna á flótta frá ríkjum þar sem almennt er viðurkennt að réttindi þeirra séu fótum troðin sé í raun svo ólík stöðu þeirra kvenna sem verða fyrir kynbundnu ofbeldi hérlendis? Ætli það sé hægt að færa rök fyrir því að þær konur sem verða fyrir kynferðisofbeldi hérlendis verði í raun fyrir kynbundnum ofsóknum þar sem þær eru ekki verndaðar af íslenskum stjórnvöldum? Hvað ætli séu margar konur sem hafa þurft að flýja heimili sín hérlendis vegna kynbundins ofbeldis?

Þessi grein er hluti af sextán daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.




Skoðun

Sjá meira


×