Erlent

Hafa fundið fleiri lík í Jövuhafi

Atli Ísleifsson skrifar
Þau lík farþega sem hafa fundist hafa verið flutt til Surubaya í Indónesíu.
Þau lík farþega sem hafa fundist hafa verið flutt til Surubaya í Indónesíu. Vísir/AFP
Talsmenn indónesískra yfirvalda segja að leitarmenn hafi nú veitt alls þrjátíu lík af farþegum vélar AirAsia sem hrapaði í Jövuhafi á sunnudag úr sjónum.

Alls voru 162 farþegar um borð í Airbus A320-vél flugfélagsins sem var á leið frá indónesísku borginni Surabaya til Singapúr.

Björgunaraðgerðir standa enn yfir en enn hefur enginn farþega vélarinnar fundist á lífi.

Sérstakur búnaður er notaður við leitina til að hafa uppi á vélinni sjálfri og flugritunum. Ekki var þó mögulegt að notast við búnaðinn í dag vegna mikils öldugangs.

Fullvíst er talið að brak vélarinnar sé að finna á tiltölulega grunnu hafsvæði, á milli 25 og 30 metra dýpi, á því svæði þar sem líkin hafa fundist. Ekki liggur fyrir um orsök slyssins.

Í frétt BBC kemur fram að sum líkanna hafi fundist föst við flugsætin. Brak vélarinnar hefur ekki fundist en talið er að þar séu flest líka farþeganna að finna. „Öldur voru milli þriggja og fjögurra metra háar í dag sem gerði mönnum erfitt að flytja lík um borð í skip og á milli skipa,“ sagði Bambang Soelistyo sem hefur stýrt björgunaraðgerðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×