Erlent

Ætla að leita réttar síns gagnvart Ísrael

Ríad Mansúr, sendiherra Palestínu hjá Sameinuðu þjóðunum, segir aðild verða að veruleika innan tveggja mánaða.
Ríad Mansúr, sendiherra Palestínu hjá Sameinuðu þjóðunum, segir aðild verða að veruleika innan tveggja mánaða. Vísir/AP
Ríad Mansúr, sendiherra Palestínu hjá Sameinuðu þjóðunum, lagði í gær inn umsókn um aðild Palestínu að Alþjóðlega sakadómstólnum í Haag.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur haldið neyðarfund í ríkisstjórn sinni vegna umsóknarinnar.

Palestínumenn hyggjast leita til dómstólsins til að sækja Ísrael til saka fyrir stríðsglæpi. Með aðild að dómstólnum geta Palestínumenn farið þess á leit að ísraelskir herforingjar og stjórnmálaleiðtogar verði dregnir fyrir dóm vegna aðildar sinnar að stríðsglæpum í tengslum við landtökubyggðir Ísraela á hernumdu svæðunum eða hernaðaraðgerðir sem valdið hafa dauða almennra borgara í stórum stíl.

Ísraelar hafa hótað einhvers konar hefndaraðgerðum verði það úr að Palestína fái aðild að dómstólnum. Bandarísk stjórnvöld hafa sömuleiðis verið mjög andsnúin því að Palestína fái aðild.

Mahmúd Abbas Palestínuforseti undirritaði hins vegar aðildarumsókn strax á miðvikudag, daginn eftir að Bandaríkin komu með neitunarvaldi sínu í veg fyrir að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna krefðist þess að Ísraelar skiluðu innan þriggja ára öllum herteknum svæðum aftur til Palestínumanna.

„Þetta er mjög mikilvægt skref,“ sagði Mansúr sendiherra eftir að hafa skilað inn umsókninni. Hann sagði að aðild yrði að veruleika innan tveggja mánaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×