Innlent

Myndaði umhverfissóða er þeir fleygðu sófum fram af Krísuvíkurbjargi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mennirnir tveir fleygðu í það minnsta þremur munum fram af bjarginu.
Mennirnir tveir fleygðu í það minnsta þremur munum fram af bjarginu.
„Þeir komu keyrandi á gráum Land Cruiser og ég hélt fyrst að þeir væru að fara að taka myndir því þeir voru að taka þessi húsgögn úr bílnum. Mér datt það einna helst í hug. Svo heyri ég bara eitthvað dynk-hljóð og leit við aftur og þá sá ég að þeir voru að fleygja þessu þarna fram af,“ segir ljósmyndarinn sem stóð tvo umhverfissóða að verki við Krísuvíkurbjarg á Reykjanesi nú undir kvöld.

Hann var þar ásamt félaga sínum að mynda sólarlagið þegar þeir urðu mannanna varir en ljósmyndarinn vill ekki láta nafn síns getið.

Ljósmyndarinn gerir ráð fyrir því að hér hafi verið um að ræða þrjá hluti, að öllum líkindum sófasett. „Þetta voru í það minnsta tveir stólar og einn stærri sófi,“ útskýrir hann fyrir blaðamanni.

Hér má sjá mennina taka sófa úr gráa Land Cruisernum
Þrátt fyrir að hafa ekki orðið vitni að því sjálfur segir ljósmyndarinn að það sé líklega ekkert nýtt að menn fleygi hinum ýmsu munum af bjarginu.

Til að mynda gangi enn lífseig saga um að bílflaki hafi eitt sinn verið ýtt þarna fram af. „Bíllinn er náttúrulega löngu horfinn, sjórinn étur þetta allt saman,“ segir ljósmyndarinn og gerir að sama skapi ráð fyrir því að sófasett kvöldsins muni hljóta sömu örlög áður en langt um líður.

Eins furðulegt og það er að fleygja innanstokksmunum fram af bjargi þá var það annað sem stakk ljósmyndarann einna helst við þessa hegðun mannanna. „Það sem mér finnst skrýtnast við þetta er að þessir menn keyrðu alla leið þangað. Hvort sem að þú kemur úr Grindavík eða Reykjavík þá er ekki eins og það sé stutt að fara út í Krísuvík. Þetta er langt frá því að vera í alfaraleið og miklu styttra á næstu Sorpustöð, þetta er alveg fáránlegt,“ segir ljósmyndarinn sem vonast til þess að menn fari ekki að taka upp á þessu í miklum mæli. 

Í samtali við blaðamann sagði lögreglumaður á Suðurnesjum að við brotum sem þessum væru „lágmarkssektir“ upp á nokkur þúsund krónur. Ef menn væru staðnir að því að henda rusli væri þeim einnig gert að taka það upp eftir sig - sem í þessu tilviki gæti reynst fyrrnefndum umhverfissóðum þrautin þyngri.

Af myndunum af dæma voru mennirnir stoltir af verki dagsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×