Erlent

Skilríkjalaus Chewbacca handtekinn á kjörstað

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sá loðni var óviðráðanlegur í Odessa.
Sá loðni var óviðráðanlegur í Odessa. Vísir/Epa
Óhætt er að segja að furðulegasta vendingin í kosningabaráttunni fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Úkraínu hafi átt sér stað í gær þegar Stjörnustríðsfígúran Chewbacca var leidd fyrir dómara í Odessa. Maðurinn í búningnum var sektaður um fimm evrur fyrir að hafa ekki náð að sýna fram á gild persónuskilríki.

Úkraínska lögreglan sendi frá sér „tilkynningu“ um málið á Instagram síðu sinni nú í morgun. Þar segir: „Ekkert óeðlilegt hér á seyði, handtókum bara skilríkjalausan Chewbacca sem var að aka Svarthöfða á kjörstað í Odessa. Myrkrahöfðinginn sagði aðgerðirnar ólöglegar enda væri Chewbacca gæludýr sem og aðstoðarmaður og þyrfti því ekki skilríki.“

Skömmu áður höfðu lögreglumenn fleygt Chewbacca inn í lögreglubíl eftir að hafa ásakað hann um ófrið á kjörstað. Chewbacca sagði að hann hafi einungis verið þar til að aðstoða Svarthöfða sem væri þar til að greiða atkvæði.

Uppákoman með Chewbacca var þó ekki það eina sem var á milli tannanna á Úkraínumönnum á kjördag. Það sem meira er - kosningarnar voru blásnar af í borginni Mariupol sem stendur í miðri átakalínunni milli stjórnar- og aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins. Að sögn stjórnvalda var ástæðan sú að kjörseðlarnir hafi verið gallaðir og búist er við því að kosið verði innan tveggja vikna.

Í Kænugarði þarf að kjósa aftur í ljósi þess að enginn frambjóðandi fékk meira en 50 prósent atkvæða. Talið er að núverandi borgarstjóri, fyrrum hnefaleikakappinn Vitaly Klitschko, muni vinna öruggan sigur í næstu umferð kosninganna.

Að sögn The Guardian hefur kosningabaráttan í Úkraínu markast af hinum „hefðbundnu bolabrögðum,“ eins og það er orðað; atkvæðakaup, spilltir frambjóðendur og baktjaldamakk. Stjórnmálaskýrendur telja það til marks að stjórnarflokkarnir, sem kjörnir voru á síðasta ári, hafi mistekist að innleiða þá „nýju gerð stjórnmála“ sem þeir lofuðu í aðdraganda liðinni þingkosninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×