Erlent

Rupert Murdoch og Jerry Hall rugla saman reytum

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Rupert Murdoch er eigandi og stofnandi fjölmiðlafyrirtækisins News Corp.
Rupert Murdoch er eigandi og stofnandi fjölmiðlafyrirtækisins News Corp. Nordicphotos/Getty
Fjölmiðlamógúllinn og milljarðamæringurinn Rupert Murd­och og fyrrverandi fyrirsætan og leikkonan Jerry Hall eru sögð eiga í ástarsambandi.

Murdoch er 85 ára gamall og er eigandi og stofnandi fjölmiðlafyrirtækisins News Corp og eru hann og Hall sögð hafa verið kynnt af systur hans og frænku en fyrirsætan fyrrverandi er 59 ára gömul.

Undanfarnar vikur hafa sögusagnir þess efnis að Murdoch og Hall væru par látið á sér kræla en nú er því haldið fram að parið muni koma opinberlega fram saman á heimsmeistarakeppninni í rugby sem fram fer þann 31. þessa mánaðar á Twickenham-leikvanginum í London.

Jerry Hall á að baki farsælan feril sem fyrirsæta. Nordicphotos/Getty
Náinn fjölskylduvinur Murdochs sagði í samtali við The Telegraph að hann væri afar hrifinn af Hall og það væri engin spurning um að þau væru par. Þau eiga að hafa eytt saman tíma nýlega í Kaliforníu auk þess sem þau nutu samneytis hvort annars á Broadway-söngleiknum Hamilton í New York.

Murdoch á sex börn og hefur verið giftur þrisvar. Síðast Wendi Deng en þau skildu árið 2013 þegar orðrómur þess efnis að hún ætti í ástarsambandi við Tony Blair gekk fjöllunum hærra. Þær sögusagnir hafa þó aldrei verið staðfestar. Hall bjó með söngvaranum Mick Jagger frá árinu 1977 en þau slitu sambandinu árið 1999 og eiga saman fjögur börn.

Fjölmiðlaveldið News Corp á meðal annars dagblöðin The Times, The Sunday Times, The Sun og The Wall Street Journal auk útgáfufyrirtækisins Harper Collins. Murd­och er þó einna þekktastur fyrir það að hafa verið stjórnarformaður fjölmiðlafyrirtækisins 21st Century Fox.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×