Menning

Stjórnendakrísa hjá Sinfó

Sigrún Eðvaldsdóttir er fiðluleikari á heimsmælikvarða og konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Sigrún Eðvaldsdóttir er fiðluleikari á heimsmælikvarða og konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Vísr/Vilhelm
Sinfóníuhljómsveit Íslands bauð landsmönnum til hádegistónleika í Hörpu á föstudaginn þar sem önnur sinfónía Beethoven var á dagskrá. Sinfónían var einnig flutt á fimmtudagskvöldið undir vaskri stjórn Santtu-Matias Rouvali.

Misskilningur er talinn hafa valdið því að Finninn átti bókaði flug frá Íslandi svo snemma daginn eftir að útlit var fyrir að hljómsveitin yrði stjórnandalaus á tónleikunum á föstudaginn. Bernharður Wilkinsson og Daníel Bjarnason, sem reglulega stjórna hljómsveitinni, voru hvorugir til taks að hlaupa í skarðið. Góð ráð dýr enda stutt í tónleika.

Var meðal annars þeirri hugmynd velt fyrir sér hvort konsertmeistarinn Sigrún Eðvaldsdóttir gæti ekki tekið hlutverkið að sér úr sæti sínu. Sett sveitina af stað sem myndi svo spila tónverkið stjórnandalaust.

Guðmundur Óli Gunnarsson
Til að gera langa sögu stutta var enn ekki komin lausn á því að morgni föstudags hvernig tónleikunum yrði stjórnað. Um klukkustund fyrir tónleika fékk svo einhver þá hugdettu að Guðmundur Óli Gunnarsson, stjórnandi hjá Íslensku óperunni, væri mögulega í Hörpu þennan dag. Svo vel vildi til að Guðmundur Óli var á svæðinu og ekki nóg með það. Hann hafði stjórnað Sinfóníuhljómsveit Norðurlands fyrir skömmu við flutning sama tónverks og þekkti það því vel.

„Það er sjaldgæft að maður fái Beethoven í hádeginu,“ segir Guðmundur Óli léttur í samtali við Vísi. Hann hafi fengið símtalið klukkustund fyrir tónleika, stjórnað hljómsveitinni í gegnum rennsli á verkinu.

Þegar landsmenn og aðrir gestir mættu á svæðið í Hörpu rétt fyrir tólf var Guðmundur Óli því kominn með sprotann í hönd eins og ekkert annað hefði staðið til. Sigrún mundaði fiðlubogann af sinni alkunnu snilld og úr urðu, að sögn nærstaddra, ljómandi vel heppnaðir hádegistónleikar.

„Aðdragandinn var mjög óvenjulegur en þetta var mjög skemmtilegt,“ segir Guðmundur Óli.

Framundan hjá hljómsveitinni í vikunni eru tónleikar með Eivöru Pálsdóttur eins og lesa má um nánar hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×