Erlent

Dæmdum nauðgara og morðingja neitað um líknardauða

Atli Ísleifsson skrifar
Læknar segja Frank van den Bleeken ófæran um að hafa stjórn á kynferðislegum hvötum sínum.
Læknar segja Frank van den Bleeken ófæran um að hafa stjórn á kynferðislegum hvötum sínum. Vísir/AFP
Belgískur maður sem afplánar nú lífstíðardóm vegna nauðgana og morðs hefur verið neitað um aðstoð frá læknum til að binda endi á líf sitt. Dómsmálaráðherra Belgíu segja yfirvöld hafa hafnað beiðni mannsins.

Í frétt BBC kemur fram að dómsmálaráðherrann Koen Geens virði þar með ráðleggingar lækna sem segja fangann Frank van den Bleeken ófæran um að hafa stjórn á kynferðislegum hvötum sínum. Geens sagði jafnframt að van den Bleeken verði fluttur til vistunar á nýju geðsjúkrahúsi.

Belgía er eitt af þremur Evrópuríkjum sem heimila líknardráp í tilvikum dauðvona fólks. Mán van den Bleeken er fyrsta málið sem snertir fanga síðan líknardrápslöggjöfin tók gildi í landinu fyrir tólf árum síðan.

Sérstök nefnd sem fjallar um beiðnir um líknardráp samþykkti beiðni mannsins í september.

Vill deyja

Dómsmálaráðuneyti Belgíu greindi frá því í tilkynningu fyrr í dag að læknar hafi ákveðið að hætta við fyrirhugaða meðferð van den Bleeken. Til stóð að meðferðin hæfist þann 11. janúar en í samtali við BBC segir talsmaður ráðuneytisins að læknirinn sem átti að halda utan um meðferðina hafi hætt við aðild sína að málinu.

Hinn 52 ára van den Bleeken var dæmdur á níunda áratugnum fyrir fjölda kynferðisárása og morð. Hann sagðist í samtali við belgíska sjónvarpsstöð árið 2013 sjálfur vilja deyja, frekar en að verja þeim tíma sem hann á eftir ólifaðan í fangelsi. „Ég er í klefa mínum 24 tíma sólarhringsins. Það er líf mitt. Mér finnst ég ekki vera mennskur þarna. Hvað get ég gert? Verð ég að sitja þarna og veslast upp? Hver er tilgangurinn með því?“

Lögmenn mannsins segja engar líkur á að honum verði nokkurn tímann sleppt þar sem hann hefði enga stjórn á kynferðislegum hvötum sínum. Þá segja þeir vitneskjuna um að hann þurfi að verja restina að lífi sínu í fangelsi valda honum miklum sálfræðilegum skaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×