Erlent

Líbanon lokar á sýrlenskt flóttafólk

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Risastórar flóttamannabúðir hafa risið á strjálbýlum svæðum í Líbanon.
Risastórar flóttamannabúðir hafa risið á strjálbýlum svæðum í Líbanon. fréttablaðið/AP
Líbanon hóf í gær framkvæmd fjöldatakmarkana á straum flóttamanna frá Sýrlandi. Almenningsálitið hefur snúist gegn sýrlenska flóttafólkinu, sem streymt hefur þangað í stórum stíl síðustu misserin.

„Við erum búnir að fá nóg. Það er engin geta lengur til þess að hýsa fleira fólk á vergangi,“ segir Nohad Machnúk innanríkisráðherra.

Frá því borgarastríðið í Sýrlandi hófst árið 2011 hafa allt að ein og hálf milljón manna flúið til Líbanons. Fyrir voru í landinu um það bil fjórar og hálf milljón íbúa, þannig að nú er einn af hverjum fjórum íbúum landsins flóttamaður frá Sýrlandi.

Nýjar reglur tóku gildi í gær, þar sem Sýrlendingar fá vegabréfsáritanir þegar þeir koma til landsins, auk þess sem dvalarleyfi verða bundin við mun styttri tíma en til þessa.

Vegabréfsáritanirnar eru í nokkrum flokkum eftir því hvaða erindi fólkið á til Líbanons. Meðal flokka má nefna ferðamennsku, viðskipti, menntun og læknisaðstoð. Ekki er sjáanlegt að þar sé gert ráð fyrir neinum hælisleitendum.

Gömlu reglurnar hafa verið í gildi áratugum saman, en samkvæmt þeim fengu Sýrlendingar án vandkvæða sex mánaða vegabréfsáritanir. Þar að auki gátu flestir valsað fram og til baka yfir landamærin, athugasemdalaust.

„Við erum að skoða þessar nýju reglur af nokkrum áhuga, því þar er ekkert minnst á samkomulag við stjórnina um að þeir berskjölduðustu fái áfram að koma yfir landamærin,“ hefur AP fréttastofan eftir Ron Redmond, talsmanni flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR. Þar er meðal annars átt við einstæðar mæður, sem flýja með börn sín. Ennfremur þá sem þurfa á brýnni læknisaðstoð að halda og börn sem orðið hafa viðskila við fjölskyldur sínar.

Líbanon er lítið land, ekki nema tíu þúsund ferkílómetrar, eða lítið eitt stærra en Vestfjarðakjálkinn. Það munar því um hálfa aðra milljón flóttamanna, sem streymt hafa til landsins á örfáum misserum.

Risastórar tjaldborgir hafa risið á strjálbýlum svæðum, auk þess sem eftirspurn eftir húsnæði í borgum og bæjum hefur snaraukist.  Leiguverð hefur hækkað verulega og álag á orku- og vatnsveitur hefur aukist gífurlega.

Heimamenn tóku flóttafólkinu í fyrstu fagnandi og buðu fram aðstoð sína, en eftir því sem stríðið í Sýrlandi hefur dregist meira á langinn hefur þolinmæðin þrotið hjá mörgum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×