Erlent

Þrír Palestínumenn skotnir til bana

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Þrír Palestínumenn voru skotnir til bana í morgun sem sagðir eru að hafa veist að Ísraelsmönnum  með hnífum. Árásirnar áttu sér stað í Jerúsalem og borginni Hebron á Vesturbakkanum en fjölmargir hafa fallið í skot- og stunguárásum í Ísrael á síðustu dögum.

Talsmaður lögreglunnar segir að einn hinna látnu, hin 16 ára gamla Luba Samri, hafi ógnað einum lögreglumannanna með hnífi þegar hún var beðin um að sýna persónuskilríki. Vegfarandi hafði bent lögreglunni á Samri sem taldi hana hegða sér grunsamlega.

Lögreglumennirnir skutu táninginn eftir að hann reyndi að stinga einn þeirra er fram kemur í frétt USA Today um málið.

Atvikið í morgun átti sér stað á svipuðum slóðum og tveir Palestínumenn stigu upp í strætisvagn og hófu skothríð fyrr í vikunni með þeim afleiðingum að tveir létu lífið.

Þá sagði talsmaður ísraelska hersins að óbreyttur borgari hafi skotið Palestínumann til bana í morgun sem reyndi að stinga hann til bana í Hebron í morgun. Ekki er óalgengt að slettist upp á milli ísraelskra landtökumanna og þeirra þúsunda Palestínumanna sem hafast við í tjöldum á svæðinu.

Þá gaf lögreglan út að palestínsk kona hafi stungið kvenkynslögreglumann við landamærastöð í Hebron áður en hún var skotin til bana. Lögregluþjónninn hlaut minniháttar áverka.

Síðastliðinn mánuð hafa átta Ísraelsmenn fallið fyrir hendi palestínskra árásarmanna. Á sama tíma hafa 34 Palestínumenn verið skotnir til bana, þar af 17 sem sagðir voru hafa ráðist á Ísraelsmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×