Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans, segir að starfsemi bankans sé í lágmarki vegna verkfallsins. Þar séu vanalega 20 náttúrufræðingar að störfum en í dag séu þeir aðeins fjórir auk þess sem tveir lífeindafræðingar sem starfa í bankanum leggja niður störf fyrir hádegi.
„Við sinnum einungis bráðaþjónustu núna í verkfalli en það þýðir að við afgreiðum blóð til allra sem að þess þurfa,“ segir Sveinn.
Hann segir mikið hafa farið af blóðflögum frá bankanum nú um páskana. Það sé í sjálfu sér ekki óvenjuleg staða en verkfallið gerir bankanum erfiðara fyrir en ella að bregðast við.

Aðspurður hvort blóðsöfnun sé í bankanum þá daga sem verkfall stendur yfir segir Sveinn:
„Við munum ekki kalla inn mikið af blóðgjöfum en munum þó gæta þess á hverjum tíma að eiga nóg af blóðhlutabirgðum. Við vitum á þessari stundu ekki hversu marga gjafa við þurfum á hverjum degi til að eiga nægar birgðir en við áætlum að í stað þess að safna úr 30-70 blóðgjöfum á dag þá séum við að safna úr svona 10-20 manns.“
Blóðsöfnun verður því einungis um þriðjungur af því sem er á venjulegum degi en Sveinn ítrekar þó að bankinn geti brugðist við neyðartilvikum.
„Það má segja að sumt af þessu svipar til þess sem gerist á sumrin þegar margt í starfsemi spítalans liggur niðri vegna sumarleyfa. Þá erum við oft með minni innkomu blóðgjafa en það sem skiptir máli í verkfalli eins og þessu er að geta brugðist við öllu hinu óvænta. Ef að svo er að þá getur Blóðbankinn kallað inn starfsfólk með engum fyrirvara og fengið undanþágur.“