Erlent

Búist við að Cameron tækli framtíð Bretlands innan ESB í Íslandsför sinni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
David Cameron kemur til Íslands í dag.
David Cameron kemur til Íslands í dag. Vísir/Getty
Búist er við því að David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, muni nota Íslandsför sína til þess að hafna því að Bretland geti farið það sem breskir miðlar kalla norsku leiðina, að Bretland geti gengið úr ESB en haldið tengingu við hinn sameiginlega markað í gegnum EES-samninginn. Cameron er væntanlegur til Íslands í dag.

Breski miðilinn Guardian fjallar um málið í dag. Þar segir að stuðningsmenn herferðarinnar um að Bretland yfirgefi ESB hafi bent á að hin svokallaða norska leið sé valmöguleiki sem vert væri að skoða þar sem það myndi tryggja aðgang að hinum sameiginlega markaði evrópska efnahagssvæðisins án þess að Bretland þyrfti að vera meðlimur í ESB.

Cameron er sagður ætla að nota tækifærið á Northern Future Forum, samstarfsvettvangi Bretlands, Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, sem hefst í Reykjavík í dag til þess að hjóla í þessa hugmynd og þjarma að stuðningsmönnum þess að Bretland gangi úr ESB með því að benda á að norska leiðin sé ekki fýsilegur kostur fyrir Bretland.

Framundan eru í desember samningaviðræður Bretlands og ESB þar sem Cameron ætlar að freista þess að endursemja um þáttöku Bretlands í ESB án þess að Bretland yfirgefi ESB. Cameron er væntanlegur til Íslands síðar í dag en hann mun funda með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni klukkan 17.00 í Alþingishúsinu.


Tengdar fréttir

David Cameron væntanlegur til landsins

Í fyrsta sinn frá stofnun lýðveldisins sem sitjandi forsætisráðherra kemur til landsins. Mun hann taka þátt í málþinginu Northern Future Forum í lok október.

Leiðtogar Norðurlandanna allir í Reykjavík

Þing Norðurlandaráðs sett í Hörpu í dag. Forsætisráðherrar Norðurlandanna sitja fyrir svörum þingfulltrúa. David Cameron kemur til landsins á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×