Skoðun

Horfur á erlendum hlutabréfamörkuðum

Jóhann Gísli Jóhannesson skrifar
Rúmum sjö árum eftir að fjármagnshöft voru sett á eru teikn á lofti um að á þeim verði verulega slakað á næsta ári eða þeim jafnvel aflétt að fullu. Við það opnast á ný tækifæri fyrir sparifjáreigendur til að dreifa sparnaði sínum erlendis. Það ætti að vera mikið hagsmunamál fyrir almenning enda hafa innlend hlutabréf mikla fylgni sín á milli og þá sérstaklega þegar innlend efnahagsleg áföll eiga sér stað, en með því að fjárfesta erlendis að hluta minnkar kerfisáhætta hlutabréfasafnsins verulega.

Árið 2015 hefur verið viðburðaríkt á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Helstu drifkraftar ársins hafa verið peningastefna seðlabanka í heiminum, miklar lækkanir á olíuverði, styrking Bandaríkjadals gagnvart flestum myntum og áhyggjur af Grikklandi og Kína. Seðlabanki Bandaríkjanna hefur gefið til kynna að stutt sé í fyrstu vaxtahækkun þar síðan árið 2006 en á sama tíma hefur evrópski seðlabankinn verið að lækka vexti og hóf í mars á þessu ári að kaupa skuldabréf á evrusvæðinu fyrir 60 milljarða evra í hverjum mánuði með það að markmiði að ýta undir lánveitingar og örva hagvöxt. Ástæða þessara andstæðu aðgerða er að hagkerfi Evrópu hefur verið tregt til að sýna merki um bata í samanburði við Bandaríkin.

Erfitt er að spá með vissu um hvar tækifæri næsta árs liggja. Flestir sérfræðingar virðast sammála um að evrópsk hlutabréf muni skila betri ávöxtun en bandarísk. Þessi skoðun er rökstudd með nokkrum atriðum. Evrópska hagkerfið virðist vera á upphafsstigum uppsveiflu en Bandaríkin eru lengra komin í sinni hagsveiflu. Auk þess er Seðlabanki Bandaríkjanna við það að hefja vaxtahækkunarferli sitt á meðan evrópski seðlabankinn mun að öllum líkindum halda vöxtum lágum og halda áfram uppkaupum á evrópskum skuldabréfum. Verðlagning er einnig hagstæðari í Evrópu, en skýringin á því er sú að væntingar um vöxt í hagnaði eru hærri fyrir evrópsk fyrirtæki en bandarísk.

Helstu óvissuþættir næsta árs eru tengdir peningastefnu seðlabanka beggja vegna Atlantshafsins og lakari hagvaxtarhorfum í Kína. Þá þurfa íslenskir fjárfestar að hafa gjaldeyrishreyfingar sérstaklega í huga þar sem töluverðar sveiflur geta orðið á íslensku krónunni gagnvart öðrum myntum ef fjármagnshöftum verður aflétt.




Skoðun

Sjá meira


×