Erlent

Ísraelar segja nýjar upprunamerkingar ESB merki um gyðingahatur

Atli Ísleifsson skrifar
Stjórnvöld í Ísrael hafa harðlega mótmælt ákvörðun ESB og segja hana hafa slæm áhrif á samband Ísraels og ESB.
Stjórnvöld í Ísrael hafa harðlega mótmælt ákvörðun ESB og segja hana hafa slæm áhrif á samband Ísraels og ESB. Vísir/EPA
Stjórnvöld í Ísrael segja ákvörðun Evrópusambandsins um að merkja vörur sem framleiddar eru á hernumdum svæðum vera merki um gyðingahatur.

Avigdor Lieberman, utanríkisráðherra Ísraels, hefur líkt því við þá ákvörðun þýskra nasista að allir gyðingar skyldu ganga um með gula stjörnu.

Framkvæmdastjórn ESB hefur ákvarðað að sérmerkja skuli alla þá ávexti, grænmeti og snyrtivörur sem framleiddar eru á hinum hernumdu svæðum – Vesturbakkanum, Gólanhæðum og austurhluta Jerúsalemborgar. Varðandi aðrar vörur frá svæðunum skuli það vera í sjálfsvald sett hvort þær séu merktar.

Í frétt SVT kemur fram að samkvæmt hinum nýju reglum skulu vörurnar vera með merkingar í öllum 28 aðildarríkjum sambandsins þannig að neytendur sjái hvort varan komi frá Ísrael eða frá einu hinna hernumdu svæða. Samkvæmt alþjóðalögum er lagt bann við að nýta hernumið svæði til efnahagslegs ávinnings. Vörur frá þessum svæðum hafa til þessa verið merktar „Made in Israel“.

Stjórnvöld í Belgíu, Danmörku og Bretlandi hafa fyrir nokkru tekið upp merkingar á vörum frá hernumdu svæðunum sem hefur neytt sambandið til að samræma stefnu aðildarríkjanna. Ákvörðun um sérstakar merkingar hefur ítrekað verið frestað, en hún byggir á fyrri ákvörðun utanríkisráðherra aðildarríkjanna frá árinu 2012.

Stjórnvöld í Ísrael hafa harðlega mótmælt ákvörðun ESB og segja hana hafa slæm áhrif á samband Ísraels og ESB. Telja Ísraelar að um mismunun sé að ræða og að ESB hafi gengið til liðs við alþjóðlega hreyfingu sem vinnur að því að ísraelskar vörur skuli sniðgengnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×